Rabbíni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum var numinn á brott og myrtur. Ísraelsmenn segja verknaðinn vera hryðjuverk sprottið af gyðingahatri.
Zvi Kogan, ísraelskur og moldóvskur ríkisborgari, hvarf í Dubaí síðdegis á fimmtudag.
Ísraelska leyniþjónustan Mossad hóf rannsókn eftir að grunsemdir vöknuðu um að honum hefði verið rænt af hryðjuverkamönnum.
Kogan var sendifulltrúi Chabad-hreyfingar gyðinga í Abú Dabí, þar sem hann bjó ásamt eiginkonu sinni.
Ísraelar sögðu í morgun að yfirvöld í furstadæmunum hefðu fundið lík Kogans. Þeir nefndu ekki þann einstaklinginn sem ber ábyrgð á morðinu á Kogan, en þjóðaröryggisráð þeirra sagði á sunnudag að þeir teldu að hætta steðjaði að Ísraelum og gyðingum á svæðinu.
„Ísraelsríki mun bregðast við með öllum ráðum og tryggja réttlæti gagnvart þeim glæpamönnum sem bera ábyrgð á dauða hans,“ segir í yfirlýsingu frá forsætisráðuneyti Ísraels.