17 manns er saknað eftir að snekkju með ferðamönnum um borð hvolfdi í Rauðahafinu, að sögn egypskra yfirvalda. 28 manns hefur verið bjargað.
Um borð í snekkjunni var 31 ferðamaður af ýmsum þjóðernum, auk 14 manna áhafnar. Neyðarkall var sent út klukkan 5.30 í morgun að staðartíma, eða klukkan hálffjögur í nótt að íslenskum tíma.
Snekkjan, sem nefnist Sjávarsaga, lagði í gær af stað í nokkurra daga köfunarleiðangur frá höfninni Ghalib, skammt frá Marsa Alam í suðausturhluta Egyptalands. Hún átti að leggjast aftur að bryggju næstkomandi föstudag í bænum Hurghada.
Héraðsstjórinn Amr Hanafi sagði að einhverjum þeirra sem komust lífs af hefði verið bjargað úr lofti á meðan aðrir voru fluttir um borð í varðskip. Umfangsmikil leit stendur yfir að fólkinu sem er saknað.
Ekkert hefur komið fram um orsakir slyssins eða hvaðan ferðamennirnir voru.