Óttast að Rússar eigi hlut að máli

Mynd sýnir farm vélarinnar í ljósum logum.
Mynd sýnir farm vélarinnar í ljósum logum. AFP/Petras Malukas

Utanríkisráðherra Þýskalands, Annalena Baerbock, segir grun leika á að brotlending vöruflutningavélar í Litháen snemma í morgun hafi verið af völdum fjölþáttaárásar (e. hybrid attack).

„Við verðum að spyrja okkur af alvöru hvort þetta hefði verið slys eða hvort um sé að ræða annað tilfelli af fjölþáttaárás,“ sagði  hún. 

Þjóðarleiðtogar hafa í auknum mæli notast við hugtakið „hybrid attacks“, þ.e. fjölþátta ógnir eða fjölþátta árásir, til að lýsa árásum sem ganga skemur en felst í árásum sem tilheyra hefðbundnum hernaði, en þar á meðal eru netárásir og skemmdarverk á innviðum.

Eftir innrás Rússa í Úkraínu hafa þjóðarleiðtogar vísað til árása sem eiga rætur að rekja til Rússlands með hugtakinu.

Ekkert sem bendi til skemmdaverka

Einn lést og þrír slösuðust eftir að vélin brotlenti skammt frá alþjóðaflugvellinum í Vilníus í Litháen á leið sinni frá Leipzig í Þýskalandi.

Laurynas Kasciunas, varnarmálaráðherra Litháens, sagði það geta tekið um viku að komast til botns í brottlendingunni en sagði að hingað til benti ekkert til skemmdaverka eða hryðjuverka.

Ingrida Simonyte, forsætisráðherra Litháen, tók í sama streng og Kasciunas og varaði við því að hrapa að ályktunum á meðan að rannsókn málsins stendur yfir.

Vélin brotlenti í byggð nærri alþjóðaflugvellinum í Vilníus.
Vélin brotlenti í byggð nærri alþjóðaflugvellinum í Vilníus. AFP/Petras Malukas

Rakst í íbúðarhús

Eftir brotlendinguna rann flugvélin hundruð metra og rakst í íbúðarhús, bíla og smærri byggingar á svæðinu.

Einn í áhöfn flugvélarinnar lést en þrír aðrir í áhöfninni særðust.

Viðbragðsaðilum tókst að rýma íbúðarhúsið sem flugvélin rakst í og stóð í ljósum logum og tókst að koma tólf íbúum þess í skjól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert