Norðmaður var skotinn til bana í leigubifreið í Mexíkóborg í Mexíkó aðfaranótt föstudags í árás tveggja manna á vélhjóli sem lítur út fyrir að hafa verið farangursrán.
Eftir því sem mexíkóska lögreglan greinir frá í fréttatilkynningu tók Norðmaðurinn, sem er frá Agder-fylki í Suður-Noregi, sér far með leigubifreiðinni á flugvellinum á Mexíkóborg og beiddist þess, að sögn bifreiðarstjórans, að verða ekið til umferðarmiðstöðvar borgarinnar, það er að segja áfanga- og brottfararstað langferðabifreiða.
Í fréttatilkynningu sinni segir mexíkóska lögreglan að henni hafi borist tilkynning um særðan mann í Jardín Balbuena-hverfinu og haldið á vettvang. Við komu þangað hafi lögregluþjónar hitt fyrir særðan mann í blóðugum fötum sem lá á götunni. Athugun sjúkraflutningafólks hafi ekki gefið nein lífsmörk til kynna og var fórnarlambið úrskurðað látið á vettvangi.
„Lögreglan ræddi við 39 ára gamlan mann sem kvaðst vera ökumaður gulrar og hvítrar leigubifreiðar og sagði frá því að skömmu áður hefði hinn látni sest inn í bifreiðina við álmu 1 á alþjóðaflugvelli Mexíkóborgar og beðið um akstur til umferðarmiðstöðvarinnar í suðurborginni,“ segir í tilkynningunni.
Meðan á akstrinum hafi staðið, og bifreiðin ekið eftir Circuito Interior-brautinni, hafi vélhjól með tveimur mönnum nálgast hana. Hafi annar þeirra lamið í afturrúðu bifreiðarinnar og svo formálalaust skotið í gegnum hana sem hafði þær afleiðingar að ökumaðurinn stöðvaði bifreiðina.
„Þegar hann steig út úr bifreiðinni sá hann farþegann liggja á götunni með farangur sinn við hlið sér,“ segir enn fremur í tilkynningu lögreglu, en norska ríkisútvarpið NRK segir frá því að tilræðismennirnir hafi haft tvær ferðatöskur á brott með sér.
Guri Solberg, vakthafandi upplýsingafulltrúi norska utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við norska dagblaðið VG að ráðuneytinu hafi borist tilkynning um andlát norsks ríkisborgara í Mexíkó og kveður hún ráðuneytið nú rannsaka málið með aðstoð lögreglu og norska sendiráðsins í Mexíkó.
Norska rannsóknarlögreglan Kripos hefur enn fremur tilkynnt lögregluyfirvöldum í Agder-fylki um málið, en að sögn Terje Kaddeberg Skaar, rannsóknarlögreglumanns í Agder, er málið ekki til rannsóknar hjá lögreglu þar í fylkinu svo henni hafi aðeins verið tilkynnt um andlát Norðmannsins. Þetta hefur NRK eftir Skaar.