Ísraelska öryggismálaráðuneytið íhugar nú hvort það hyggist ganga að vopnahléssamkomulagi í átökum sínum við Hizbollah-skæruliðasamtökin í Líbanon, talsmaður bandaríska þjóðaröryggisráðsins telur samkomulag innan seilingar en ónefndur ísraelskur embættismaður segir AFP-fréttastofunni að yfirmenn öryggismála þar í landi muni ákveða sig á morgun, þriðjudag.
„Við teljum okkur nú vera í námunda,“ sagði John Kirby, áðurnefndur talsmaður þjóðaröryggisráðs, „við erum ekki á leiðarenda.“
Bandarísk stjórnvöld hafa ekki legið á bjartsýni sinni allt yfirstandandi ár um að vopnahlé náist í átökum Ísraela og Hamas-samtakanna á Gasa þótt þar sé enn barist og Ísraelar mæti nú einnig vígamönnum Hizbollah í Líbanon.
Frönsk stjórnvöld leggja einnig orð í belg, enda hafa þau komið að vopnahlésumleitunum við hlið samningamanna Washington. Sendi franska forsetaembættið Ísraelsmönnum og Hizbollah þá hvatningu að „nýta nú tækifærið“.
Á bandaríska fréttavefnum Axios hafa birst fregnir af því að deiluaðilar nálguðust nú samkomulag sem fæli í sér 60 daga tímabil þar sem Ísraelar kölluðu herlið sitt til baka, líbanski herinn færði sig nær landamærum ríkjanna og liðsmenn Hizbollah fjarlægðu þungan vopnabúnað sinn norðan Litani-árinnar.
Fregnir af fundarhöldum ísraelska öryggismálaráðuneytisins bárust samhliða því sem Ísraelar tilkynntu um röð árása sem þeir gerðu að eigin sögn í dag, meðal annars á suðurúthverfi líbönsku höfuðborgarinnar Beirút þar sem Hizbollah-liðar hafa haldið mjög til.
Ákall alþjóðasamfélagsins um frið í Líbanon hefur orðið æ háværara upp á síðkastið og barst hvatning um samþykki vopnahlés frá Sameinuðu þjóðunum í dag. Í sama streng tók Joseph Borrell höfuðsamningamaður Evrópusambandsins í gær er hann krafðist tafarlauss vopnahlés í kjölfar fregna bandarískra samningamanna um að samningar væru innan seilingar.
Telja ísraelskir fjölmiðlar líklegt að þarlendi forsætisráðherrann Benjamín Netanjahú muni styðja samkomulagstillögu Bandaríkjamanna um vopnahlé en Itamar Ben Gvir, hinn öfgahægrisinnaði ráðherra öryggismála, varar við því að vopnahléssamkomulag við Hizbollah í Líbanon gerði að engu færið til að uppræta Hizbollah í eitt skipti fyrir öll.
„Ég skil alla togstreituna og öll rökin, en engu að síður væru það reginmistök,“ skrifar Gvir á X.