Einn er látinn og þrír eru slasaðir eftir að vöruflutningavél brotlenti skammt frá alþjóðaflugvellinum í Vilníus í Litháen snemma í morgun.
Flugvélin, sem var á vegum flutningafyrirtækisins DHL, var á leið frá Þýskalandi. Hún brotlenti í grennd við hús í nokkurra kílómetra fjarlægð frá flugvellinum er hún var að undirbúa sig fyrir lendingu.
Að sögn lögreglunnar hafa tólf verið fluttir heilir á húfi frá húsinu.
Mikill viðbúnaður var vegna slyssins í morgun og var nokkrum götum í nágrenni vettvangsins lokað.
Vélin tók á loft klukkan þrjú í nótt að staðartíma frá flugvellinum í Leipzig í Þýskalandi.
BBC greinir frá því að flugumferð um flugvöllinn í Vilníus hafi ekki verið stöðvuð.
Reuters greinir frá því að slökkviliðsmenn hafi sést ráða niðurlögum elds í byggingu um 1,3 km norður af flugbraut.
Orsök brotlendingarinnar liggur ekki fyrir en yfirvöld í Litháen hafa hafið rannsókn á slysinu.