Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir fullorðna Evrópubúa drekka of mikið og hvetur þjóðir Evrópu til að sporna gegn áfengisneyslu.
Samkvæmt nýrri skýrslu sem WHO tók saman drekka fullorðnir Evrópubúar að meðaltali 9,2 lítra af hreinu áfengi árlega sem er met á heimsvísu segir í tilkynningu WHO sem heilbrigðisráðuneytið gerir skil á.
Rekja má tæplega 800.000 dauðsföll í Evrópu ár hvert til áfengisneyslu en það gerir um 9% allra dauðsfalla í álfunni.
Um 90% dauðsfalla í Evrópu má rekja til langvinnra sjúkdóma, þá hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, sykursýki og langvinnra öndunarfærasjúkdóma. Áfengisneysla er áhættuþáttur margra langvinnra sjúkdóma og eru um 600.000 dauðsföll ár hvert af völdum þeirra rakin til áfengisneyslu. Þetta á einkum við um hjarta- og æðasjúkdóma, lifrarsjúkdóma og krabbamein, segir í skýrslu WHO.
Enn fremur segir í skýrslunni að nýgengi áfengistengdra krabbameina sé hvað hæst í Evrópu á heimsvísu og að vitund almennings um að neysla áfengis geti valdið krabbameini sé lítil.
Árið 2019 neyttu karlar fjórfalt meira áfengis en konur eða um 14,9 lítra af hreinu áfengi á ári á móti 4 lítrum kvenna.
Þá er einn af hverjum tíu fullorðnum talinn vera með áfengisvandamál og tæplega einn af hverjum tuttugu með áfengisfíkn.
WHO leggur til hækkun áfengisgjalda, víðtækar takmarkanir á markaðssetningu áfengis og að draga úr aðgengi fólks að áfengi.