Flugritarnir fundnir

Flugritarnir fundust í braki vélarinnar í morgun. Talið er að …
Flugritarnir fundust í braki vélarinnar í morgun. Talið er að það muni taka a.m.k. þrjá daga að rannsaka vettvanginn. AFP

Flugritar flutningavélarinnar sem fórst í Litháen í gær hafa fundist. Frá þessu greinir dómsmálaráðuneyti landsins, en rannsókn flugslyssins stendur yfir.

Vélin, sem flaug fyrir flutningafyrirtækið DHL, hóf sig til flugs frá þýsku borginni Leipzig og hún fórst snemma í gærmorgun skammt frá flugvellinum í Vilníus í Litháen með þeim afleiðingum að einn úr áhöfn vélarinnar beið bana.

Verið er að kanna hvort um möguleg skemmdarverk hafi verið að ræða.

Það var mikill viðbúnaður á vettvangi.
Það var mikill viðbúnaður á vettvangi. AFP

Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar, að yfirvöld í Litháen hafi verið að skoða atvik þar sem íkveikjubúnaði hefur verið komið fyrir í flutningavélum. Þau hafa aftur á móti neitað að gefa nokkuð upp um hvort þær athuganir tengist mögulega flugslysinu í gær.

Dómsmálaráðuneyti landsins segir í yfirlýsingu að flugritarnir hafi fundist um kl. 11:30 að staðartíma (kl. 09:30 að íslenskum tíma) í braki vélarinnar.

Vélin flaug fyrir DHL-flutningafyrirtækið.
Vélin flaug fyrir DHL-flutningafyrirtækið. AFP

Erlendir sérfræðingar aðstoða við rannsóknina

Skoðun á þeim getur gefið vísbendingar um það sem gerðist, en þegar vélin brotlenti rann hún áfram nokkur hundruð metra áður en hún hafnaði á fjölbýlishúsi um einum kílómetra frá flugvelli borgarinnar.

Ráðuneytið segir enn fremur, að þýskir rannsakendur séu komnir til landsins til að aðstoða við rannsókn málsins. Þá er einnig von á sérfræðingum frá Spáni og Bandaríkjunum sem munu einnig leggja hönd á plóg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert