Lögreglan í Laos hefur handtekið átta starfsmenn á farfuglaheimili fyrir bakpokaferðalanga í kjölfar dauða sex ferðamanna sem létust af völdum líklegrar metanóleitrunar á vinsælum ferðamannastað í norðurhluta Laos í síðustu viku.
BBC greinir frá og segir að eigendur farfuglaheimilisins, sem er lokað, hafi neitað því að hafa afgreitt mengað alkahól en rannsókn lögreglu á dauðsföllunum stendur enn yfir.
Fjölmiðlar í Laos greina frá því að meðal þeirra sem hafa verið handteknir séu starfsmenn og stjórnendur frá Nana Backpacker Hostel í bænum Vang Vieng, þar sem nokkrir ferðamannanna sem síðar létust höfðu dvalið.
Ferðamennirnir sem létust eru frá Ástralíu, Bretlandi, Danmörku og Bandaríkjunum en stjórnvöld meðal annars í Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Bretlandi hafa varað borgara sína við áfengisdrykkju í Laos.