Kaffiverð í hæstu hæðum

Eftirspurn eftir kaffi er enn mikil en í ljósi aðstæðna …
Eftirspurn eftir kaffi er enn mikil en í ljósi aðstæðna neyðast kaffiframleiðendur til þess að ákveða hverjum þeir selja kaffi og hverjum ekki. Ljósmynd/Colourbox

Verð á kaffi er í hæstu hæðum og hefur ekki verið hærra síðan 1977. Áhyggjur eru uppi um skort á arabica-kaffirunnum í Brasilíu sökum mikils þurrks í landinu á árinu.

Arabica-kaffirunninn (coffea arabica) er helsta jurtin sem brúkuð er til kaffiframleiðslu í heiminum, en á bilinu 60-80% af kaffi heimsins er unnið úr arabica-runnum. 

Aldrei mælst jafnmikill þurrkur

Pund af kaffibaunum af arabica-runnanum nemur nú 320,10 bandaríkjasentum sem samsvarar um 968 krónur á kílógrammið. 

Til samanburðar má geta að pundið af arabica-kaffibaunum var í hæstu hæðum árið 1977 eða 337,50 bandaríkjasent sem samsvarar um 1.019 kr/kg.

Á einu ári hefur aldrei mælst jafnmikill þurrkur í Brasilíu sem hefur vakið talsverðar áhyggjur um getu kaffiframleiðenda í landinu til að mæta uppskeruáætlun fyrir árin 2025 og 2026.

Fleiri þættir spila inn í

Verðhækkunin er einnig rakin til stöðu heimsmála. Truflanir á flutningi um Rauðahaf vegna afskipta hryðjuverkasamtaka Húta í Jemen, áhyggjur af nýrri tollverndunarstefnu í Bandaríkjunum og reglugerðir Evrópusambandsins til að sporna gegn eyðingu skóga eru meðal þátta sem sagðir eru stuðla að hækkandi verði á kaffi.

Eftirspurn eftir kaffi er enn mikil en í ljósi aðstæðna neyðast kaffiframleiðendur til þess að ákveða hverjum þeir selja kaffi og hverjum ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka