Varnarmálaráðherra Kína grunaður um spillingu

Dong Jun.
Dong Jun. AFP/Roslan Rahman

Rannsókn er sögð standa yfir á Dong Jun, varnarmálaráðherra Kína, vegna gruns um spillingu.

Breska blaðið Financial Times vitnaði í núverandi og fyrrverandi bandaríska embættismenn vegna málsins og kom fram í grein þess að rannsóknin á Dong væri hluti af víðtækari rannsókn á spillingu innan hersins.

Sá þriðji grunaður um spillingu

Ef fréttin reynist á rökum reist verður Dong þriðji kínverski varnarmálaráðherrann sem er rannsakaður vegna meintrar spillingar.

Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, Mao Ning, hafði ekkert um málið að segja á blaðamannafundi í morgun.

Li Shangfu, fyrrverandi varnarmálaráðherra Kína,
Li Shangfu, fyrrverandi varnarmálaráðherra Kína, AFP/Roslan Rahman

Tók við í desember

Dong, sem er fyrrverandi hershöfðingi í sjóhernum, var skipaður varnarmálaráðherra í desember eftir að forvera hans, Li Shangfu, var sagt upp eftir aðeins sjö mánaða starf. Li var síðar rekinn úr Kommúnistaflokknum fyrir ýmis brot, þar á meðal mútuþægni, að sögn kínverskra fjölmiðla. Hann hefur ekki sést opinberlega síðan.

Forveri Li í embætti, Wei Fenghe, var einnig rekinn úr flokknum vegna meintrar spillingar.

Varnamálaráðherrann fyrrverandi, Wei Fenghe.
Varnamálaráðherrann fyrrverandi, Wei Fenghe. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka