Grunur um nauðgun á göngum spítalans

Lögreglan í Svíþjóð. Enginn er í haldi hennar vegna málsins.
Lögreglan í Svíþjóð. Enginn er í haldi hennar vegna málsins. AFP

Lögreglan í Malmö hefur til rannsóknar nauðgun sem grunur leikur á að hafi átt sér stað á gangi undir háskólasjúkrahúsinu í borginni í gærkvöldi.

Sjúkrahúsið hefur kallað til viðbótargæslu og hert myndavélaeftirlit með öllu spítalasvæðinu eftir atvikið.

Sænska ríkisútvarpið greinir frá og segir lögreglu verjast allra fregna, en samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu mun nauðgunin hafa verið framin í göngunum.

Með gangi er átt við löng neðanjarðargöng sem liggja undir öllu sjúkrahúsinu og eru meðal annars notuð til flutninga.

Aðgangskort þarf til að komast í göngin

„Ég get staðfest að við höfum hafið frumrannsókn á nauðgun, ég vil ekki segja meira en það að sinni,“ hefur ríkismiðillinn eftir upplýsingafulltrúa lögreglunnar.

Enginn er í haldi lögreglu en verið er að athuga hvort efni úr myndavélum geti varpað ljósi á málið.

Til að komast inn í göngin þarf aðgangskort.

„En ekkert kerfi er algjörlega öruggt,“ segir upplýsingafulltrúi spítalans.

„Við höfum nú leitað á öllum göngunum til að ganga úr skugga um að þar sé enginn sem ekki á að vera þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka