Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur lagt til að aukin löggæsla verði í Eystrasalti til að vernda innviði þar eftir að tveir sæstrengir voru rofnir á dögunum.
Sænska og finnska lögreglan rannsakar málið og evrópskir embættismenn segjast hafa grunsemdir um að skemmdarverkin tengist innrás Rússa í Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld hafa vísað þessu á bug.
Tusk sagðist á blaðamannafundi í gær hafa áhyggjur af öryggi í Eystrasalti og innviðum þar.
„Við þurfum ný verkfæri og metnaðarfullar leiðir til að stemma stigu við þessari ógn. Þess vegna legg ég til í dag að stofnaður verði sérstakur eftirlitshópur vegna Eystrasalts,“ sagði Tusk á fundinum, þar sem einnig voru staddir ráðherrar frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Lettlandi, Noregi og Svíþjóð.
Hann bætti við að hann væri „mjög ánægður með að samstarfsmönnum mínum fannst þetta áhugavert og við munum halda áfram að vinna í málinu.“