Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, hefur lýst yfir herlögum í landinu.
Í óvæntu sjónvarpsávarpi sem ekki hafði verið auglýst sagði hann að ákvörðunin væri nauðsynleg til að verja landið fyrir kommúnistaógn frá Norður-Kóreu og til að verjast öflum sem væri beint gegn ríkinu.
Í suðurkóreska miðlinum Korea JoongAng Daily er haft eftir forsetanum í ávarpinu þar sem hann segir að með herlögunum eigi að bregðast snöggt við og eyða norðurkóreskum kommúnískum herafla eða hermætti sem ógni frelsi og hamingju íbúa Suður-Kóreu og stjórnskipan landsins.
Í ávarpinu, sem var stutt, sagðist hann ekki hafa aðra valkosti en að lýsa yfir herlögum, en tiltók ekki nákvæmlega í hvaða aðgerðir yrði ráðist. Hann sagði herlögin valda einhverjum vandkvæðum fyrir almenna íbúa, en að áhersla væri sett á að takmarka slík áhrif.
Samkvæmt öðrum suðurkóreskum miðli, Yonhap News Agency, virðist herlögunum beint að stjórnarandstöðu landsins, en ákvörðun forsetans kom í kjölfar þess að fjárlög forsetans, þar sem kveðið var á um mikinn niðurskurð, komust ekki í gegnum þingnefnd.
Hefur leiðtogi helsta stjórnarandstöðuflokksins, Lýðræðisflokksins, sagt að ákvörðun forsetans stangist á við stjórnarskrá landsins. Þá hefur formaður stjórnarflokksins People Power Party, sem er flokkur forsetans, einnig sagt að yfirlýsing forsetans um herlög sé röng.
Herlög eru samkvæmt skilgreiningu tímabundin ráðstöfun sem hægt er að grípa til þegar talið er að borgaraleg yfirvöld séu ekki talin geta starfað á fullnægjandi hátt. Geta slík lög meðal annars takmarkað almenn mannréttindi. Þótt herlög eigi að vera tímabundin eru mörg fordæmi víða um heim þar sem þau eru framlengd, jafnvel ítrekað.