Skemmdir á tveimur ljósleiðaraköplum milli Finnlands og Svíþjóðar eru nú til rannsóknar í Finnlandi og skrifar Lulu Ranne fjarskiptaráðherra landsins á samfélagsmiðilinn X að málið sé litið alvarlegum augum en skemmdirnar á köplunum eru á þurru landi.
Telur finnska lögreglan að saknæm háttsemi liggi að baki tjóninu og hefur ríkisstjórn landsins verið tilkynnt um málið auk hersins og finnsku póst- og fjarskiptastofnunarinnar.
Rekstraraðili kaplanna er fjarskiptafyrirtækið Global Connect sem greinir frá því að reikna megi með að viðgerð taki minnst tvo sólarhringa en netsambandi að hluta hefur þó verið komið á að nýju.
„Við lítum málið alvarlegum augum. Finnska lögreglan hefur málið nú til rannsóknar og rannsakar það sem skemmdarverk,“ segir Carl-Oskar Bohlin varnarmálaráðherra við sænska ríkisútvarpið SVT og lætur þess að auki getið að ríkisstjórnin fylgist enn fremur með málinu í samstarfi við þær stofnanir sem hlut eiga að máli.
Uppfært kl. 10:24:
Málið er ekki lengur rannsakað sem skemmdarverk þar sem nú hefur komið í ljós að skemmdirnar á köplunum urðu við jarðvinnuframkvæmdir.