Dómstóll í bandaríska ríkinu Delaware hefur úrskurðað að Tesla-forstjórinn og auðkýfingurinn Elon Musk eigi ekki tilkall til kaupauka, eða bónusgreiðslu, er nemur 56 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 7,8 billjóna íslenskra króna, það er 7.776 milljarða.
Það var Kathaleen McCormick dómari sem úrskurðaði að Musk, auðugasti maður veraldar samkvæmt lista Bloomberg, ætti ekki heimtingu á svo hárri bónusgreiðslu hvað svo sem hlutafjáreigendur rafmagnsbifreiðaframleiðandans Tesla í Delaware hefðu um málið að segja. Er þetta raunar í annað skiptið sem sami dómari synjar forstjóranum um kaupaukann því McCormick kvað upp samhljóða úrskurð í janúar.
„Hlutafjáreigendur ættu að fara með atkvæðisrétt í fyrirtækjum, ekki dómarar,“ skrifar Musk á samfélagsmiðilinn X í mótmælaskyni og andæfir niðurstöðu dómsins sem stjórnendur Tesla hyggjast nú áfrýja á þeim forsendum að hún sé „röng“.
Lét McCormick þess meðal annars getið í úrskurðarorðum sínum að kaupaukinn hefði verið sá hæsti sem um getur í sögu fyrirtækja á hlutabréfamarkaði hefði Musk hlotið hann. Sagði enn fremur í rökstuðningi hennar að stjórnendum fyrirtækisins hefði ekki auðnast, þrátt fyrir „skapandi“ rök lögmanna þess, að sýna fram á að kaupaukinn, sem á rætur að rekja aftur til ársins 2018, teldist sanngjarn.
Þrír fjórðu hlutar eigenda hlutabréfa fyrirtækisins samþykktu greiðsluna við atkvæðagreiðslu í júní á þessu ári. Hluti þeirra sem atkvæðum voru bornir og tilheyrðu þeim fjórðungi sem ekki vildi fallast á greiðsluna fóru með málið fyrir dóm og úrskurðaði McCormick að þeim bæri þóknun að upphæð 345 milljónir dala, jafnvirði tæplega 48 milljarða íslenskra króna, ekki 5,6 milljarða dala hlut í fyrirtækinu sem jafngildir tæplega 800 milljörðum króna.
Charles Elson, einn helsti sérfræðingur í fjármálum hlutafélaga í Delaware og fyrirlesari við Weinberg-miðstöð Háskólans í Delaware, mærir úrskurð McCormick og bendir á að stjórn Tesla geti ekki talist hlutlaus þar sem hún hafi lotið ægivaldi Musks og kaupaukinn hafi náð langt út fyrir öll sanngirnismörk.