Þingið felldi herlög forsetans úr gildi

Mótmælendur fyrir utan þinghúsið.
Mótmælendur fyrir utan þinghúsið. AFP/Anthony Wallace

Allir þeir 190 þingmenn af 300 sem viðstaddir voru á suður-kóreska þinginu greiddu atkvæði með að fella úr gildi herlög sem forseti landsins, Yoon Suk Yeol, setti fyrr í dag. Ákvað forsetinn að setja á herlög eftir að þingið afgreiddi ekki fjárlög hans þar sem meðal annars var kveðið á um mikinn niðurskurð. Bæði andstæðingar forsetans á þingi sem og hans eigin flokksmenn lögðust gegn ákvörðun hans að setja á herlögin.

Forseti þingsins, Woo Won-sik, lagði fram tillöguna um að fella herlögin úr gildi klukkan 01:00 eftir miðnætti að staðartíma, en það var klukkan 16:00 að íslenskum tíma. Bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðingar greiddu atkvæði með tillögunni.

Lögreglan stóð vörð fyrir utan þinghúsið eftir að neyðarlögin voru …
Lögreglan stóð vörð fyrir utan þinghúsið eftir að neyðarlögin voru sett á. AFP/Jung Yeon-je

Mikil ringulreið hefur ríkt á þinginu í dag eftir að forsetinn lýsti yfir herlögum í óvæntu sjón­varps­ávarpi sem ekki hafði verið aug­lýst. Sagði hann að ákvörðunin væri nauðsyn­leg til að verja landið fyr­ir komm­ún­ista­ógn frá Norður-Kór­eu og til að verj­ast öfl­um sem væri beint gegn rík­inu.

Her landsins stöðvaði starfsemi þingsins eftir ákvörðun forsetans. Girti herinn þinghúsið af og mátti sjá herþyrlur lenda á þaki þingbyggingarinnar. Samkvæmt herlögunum mátti hand­taka hvern þann sem fram­fylg­di ekki her­lög­um lands­ins án heim­ild­ar. Náðu lögin einnig til fjöl­miðla í land­inu.

Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, flutti fyrr í kvöld ávarp …
Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, flutti fyrr í kvöld ávarp þar sem hann lagði á herlög. Þingið hefur nú fellt þau úr gildi. AFP

Formaður Lýðræðis­flokks­ins sem sit­ur í stjórn­ar­and­stöðu, Lee Jae-myung, sagði ákvörðun Yoon á skjön við stjórn­ar­skrá Suður-Kór­eu, en hann boðaði til þing­fund­arins þar sem tillagan um að fella her­lög­in úr gildi var samþykkt.

Biðlaði Lee jafnframt til al­menn­ings að fjöl­menna fyr­ir fram­an þing­húsið til að mót­mæla aðgerðum Yoon. Stuttu síðar hafði fjölmenni mætt fyrir utan þingbygginguna og gagnrýndi herlögin.

Hermenn reyna að komast inn í þinghúsið eftir að forsetinn …
Hermenn reyna að komast inn í þinghúsið eftir að forsetinn lýsti yfir herlögum. AFP/Jung Yeon-je
Rútur með lögreglumönnum fyrir utan þinghúsið.
Rútur með lögreglumönnum fyrir utan þinghúsið. AFP/Anthony Wallace
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert