Stjórnarandstaðan í Suður-Kóreu hefur gefið út ákæru á hendur Yoon Suk Yeol, forseta Suður-Kóreu, fyrir embættisbrot eftir að hann setti á herlög í landinu.
Þingið felldi herlögin skömmu síðar úr gildi.
Framtíð Yoon, sem er íhaldsmaður og fyrrverandi saksóknari, er í mikilli óvissu. Hann var kjörinn forseti árið 2022. Eftir ákvörðun Yoon um herlögin stöðvaði her landsins starfsemi þingsins, girti þinghúsið af og sjá mátti herþyrlur lenda á þaki þinghússins.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær greidd verða atkvæði á þinginu um ákæruna en hugsanlegt er að það verði á föstudaginn.
Stjórnarandstaðan er með vænan meirihluta á þinginu, þar sem 300 þingmenn sitja, og þarf ekki mörg atkvæði frá flokki forsetans til að tryggja sér þá tvo þriðjuhluta atkvæða sem þarf til að ákæran um embættisbrot verði samþykkt.