Franska þjóðþingið samþykkti rétt í þessu að bola Michel Barnier forsætisráðherra úr embætti en hann hefur aðeins gegnt starfinu í þrjá mánuði.
Þetta er fyrsta sinn í 60 ár sem þjóðþingið samþykkir vantrauststillögu á hendur sitjandi ríkisstjórn.
Tillagan var lögð fram af vinstri flokkunum í þinginu en naut einnig stuðnings hinnar stóru Þjóðfylkingar, róttæks hægri flokks undir forystu Marine Le Pen sem situr í stjórnarandstöðu.
Vantraustið var lagt fram á hendur Barnier eftir að hann nýtti sér grein 49.3 í stjórnarskrá Frakka til að þvinga fjárlög í gegnum þingið.
Greinin gerir ríkisstjórninni heimilt að samþykkja frumvarp án viðkomu í þjóðþinginu, en skyldu þingmenn mótmæla því, sem þeir gerðu, þá geta þeir lagt fram vantrauststillögu á hendur ráðherranum. Verði hún samþykkt, sem hún var, eru lögin felld úr gildi og ráðherranum vikið úr embætti.