Sameinuðu þjóðirnar segja þörf á 47 milljörðum bandaríkjadala í neyðaraðstoð á næsta ári.
Þær segja að mörg hundruð milljónir manna þurfi á aðstoðinni að halda vegna átaka í heiminum og loftslagsvandans.
„Heimurinn logar,“ sagði nýr mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna, Tom Fletcher, við blaðamenn í Genf og kvaðst jafnframt horfa kvíðinn til ársins 2025.
Stríðsátök hafa verið mikil, meðal annars á Gasasvæðinu, í Úkraínu og Súdan, auk þess sem loftslagsbreytingar og öfgafullt veðurfar hafa haft mikil áhrif. Sameinuðu þjóðirnar reikna með því að 305 milljónir manna víðs vegar um heiminn muni þurfa á einhvers konar neyðaraðstoð að halda á næsta ári.
„Við erum að glíma við margþætt vandamál í veröldinni og fólkið sem er mest berskjaldað í heiminum lendir verst í þessu,“ sagði Fletcher.
Sameinuðu þjóðirnar og aðrar mannúðarstofnarnir óskuðu á sama tíma í fyrra eftir örlítið meira fjármagni í neyðaraðstoð fyrir þetta ár.