Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að Ísraelsher hafi tekist að endurheimta lík gísls í rústum á Gasaströndinni.
„Í sérstakri aðgerð var lík Itaí Svirskí, sem var hnepptur í gíslingu þann 7. október [2023] frá Beeri, endurheimt af Gasaströndinni,“ er haft eftir Netanjahú í yfirlýsingu sem forsætisráðuneytið hefur sent út.
Um 250 manns voru teknir í gíslingu þann örlagaríka dag og um 1.200 drepnir af vígasveitum Hamas. Talið er að Ísraelsher hafi drepið tæplega 50 þúsund manns á Gasaströndinni í hefndarárásum sínum. Þar af létust 30 á síðasta sólarhring, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa.
117 gíslum hefur verið sleppt en af hinum 133 er aðeins talið að 60 séu enn á lífi.
Hamas segjast nú hafa upplýsingar um að Ísraelsmenn ætli sér að framkvæma sérstaka aðgerð til að bjarga þeim gíslunum sem eftir lifa, en hryðjuverkasamtökin hóta því að taka gíslana „úr umferð“ ef af þeirri aðgerð verður, samkvæmt yfirlýsingu sem Reuters hefur undir höndum.
Á morgun er búist við því að sendinefnd Ísraelsmanna lendi í Kaíró í Egyptalandi til þess að eiga í vopnahlésviðræðum vegna stríðsins, að sögn fréttaveitunnar Al-Araby al-Jadeed, sem greinir frá því að Egyptar hafi gert drög að nýrri vopnahléstillögu eftir að hafa rætt við forystu Hamas.