Íbúar í Róm reyna nú að sporna við því að veitingastaðir gangi á lagið á næsta ári og hækki verð óhóflega á veitingastöðum borgarinnar.
Hátíðahöld hjá kaþólsku kirkjunni eru fyrirhuguð á næsta ári og verður mikið um dýrðir. Hátíðin er einungis á 25 ára fresti og er jafnvel búist við að met í fjölda ferðamanna falli í Róm. Vatíkanið er jú í Rómarborg.
Neytendasamtök fóru að mælast til þess í síðasta mánuði að setja þurfi hömlur á verðlag á veitingastöðum í borginni á næsta ári þegar ferðamannastraumurinn byrjar. Íbúar í Rómi eigi ekki að þurfa að borga meira en eðlilegt sé fyrir klassíska ítalska rétti.
Neytendasamtök lögðu í framhaldinu til við borgaryfirvöld í Róm að beita sér í málinu og fara fram á að veitingastaðir setji verðþak á eftirtalda rétti: Pasta Carbonara, Pasta all’Amatriciana og Pasta Cacio e Pepe. Lagt er til að þessir réttir kosti ekki meira en 12 evrur og þá er því einnig beint að pizzustöðum að setja þak á verðið.
Borgaryfirvöld í Róm hafa samþykkt tillöguna og beina því tilmælum til veitingastaða í borginni að klassísku réttirnir kosti ekki meira en 12 evrur. Borgarstjórnin hefur vitaskuld ekki vald til að ákveða verð á veitingastöðum og því er um tilmæli að ræða.
Þeir veitingastaðir sem fara eftir þessum tilmælum fá vottun frá borginni þess efnis og geta sett slíkar merkingar upp á stöðunum.