Brian Thompson, forstjóri stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, sem var skotinn til bana í New York í gær, var metnaðarfullur en þægilegur leiðtogi sem á rætur sínar að rekja til smábæjar í Iowa.
Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal (WSJ) greinir frá.
Thompson var 50 ára tveggja barna faðir og tók við sem forstjóri UnitedHealthcare árið 2021. Snemma morguns í gær var hann hins vegar myrtur í skipulagðri árás launmorðingja, að því er virðist.
Myndskeið af atvikinu er í dreifingu þar sem sjá má byssumanninn, með skammbyssu og hljóðdeyfi, skjóta Thompson nokkrum sinnum fyrir utan hótel hvar fyrirtækið var með ráðstefnu.
Um 50 milljónir manns eru með sjúkratryggingar hjá UnitedHealthcare og á síðasta ári voru tekjur félagsins 281 milljarður dollara.
Eiginkona Thompsons sagði í viðtali við NBC að hann hefði fengið hótanir sem tengdust hugsanlega deilum vegna sjúkratrygginga.
Forsvarsmenn sjúkratryggingafyrirtækja segja við WSJ að það sé ekki óeðlilegt að fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra lendi í hótunum eða málsóknum frá viðskiptavinum.
Oft og tíðum er kvartað eða kært vegna hás verðs eða vegna þess að einhverjum er synjað um ákveðna tryggingu.
Fyrrverandi samstarfsmenn Thompsons segja hann hafa verið með mikið keppnisskap og verið drífandi, en einnig verið fyndinn og með gott viðmót við starfsmenn. Hann mundi nöfn vel og talaði vel um heimabæ sinn í Iowa, Jewell.
„Hann var stór persónuleiki innan fyrirtækisins,“ sagði William Golden, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá UnitedHealthcare.
Steve Nelson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá UnitedHealth, sem nú rekur Aetna-deild CVS Health, sagði að Thompson hefði stundum dregið úr spennu vegna skoðanaágreinings með því að skora á menn í sjómann.
„Hann var gáfaðasti maðurinn í herberginu, en einhvern veginn ekki á pirrandi hátt,“ sagði Nelson.
Mörgum þótti velgengi hans merkileg og dæmi um það hvað er mögulegt í Bandaríkjunum, en hann var alinn upp í 1.200 manna sveitaþorpi vel fjarri stórborgum. Faðir hans vann í kornlyftu í 40 ár og hjálpaði bændum að losa og geyma kornfarma.
Hann dúxaði í framhaldsskóla og fór svo í Iowa-háskóla, þar sem hann var með hæstu lokaeinkunnina í sínum bekk.
Thompson var endurskoðandi að mennt og réð sig til UnitedHealth árið 2004. Eftir að hafa unnið að samruna og yfirtökum starfaði hann við fjármálastörf áður en hann skipti yfir í sífellt meira áberandi stjórnunarstörf þar sem hann gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu stórfyrirtækisins.