Árekstur tveggja flutningaskipa varð á Kattegat-sundinu, við eyjuna Anholt, miðja vegu milli Jótlands og Svíþjóðar, um klukkan 22.30 í gærkvöldi að skandinavískum tíma og rannsakar danski herinn nú tildrög slyssins þar sem atvikið átti sér stað á dönsku hafsvæði.
„Þetta er óvenjulegt en gerist annað slagið, orsökin liggur ekki fyrir eins og stendur,“ hefur sænska Aftonbladet eftir Jens Hensen, yfirmanni danska sjóhersins, og bætir því við að árekstur skipanna hafa orðið á svæði þar sem skipaumferð er tíð, en árekstrar skipa á svæðinu séu engu að síður fátíðir.
Skipin sem rákust saman voru SSI Erdogan Bay og Tzarevna, en hið síðarnefnda komst í heimsfréttirnar árið 2022 þegar það varð innlyksa í höfninni í Maríupol í Úkraínu við innrás Rússa í febrúar og komst hvorki lönd né strönd fyrr en undir lok þess sama árs.
Að sögn Hensen reyndist ekki þörf á að rýma skipin í kjölfar árekstrarins og héldu áhafnir þeirra því kyrru fyrir um borð en flugvél sænsku strandgæslunnar kom einnig á vettvang.
Neyðarkall frá Tzarevna heyrðist í fjarskiptum þriðja skips sem var á siglingu þar nærri.
Skammt frá hafa Danir og Þjóðverjar haft mikinn viðbúnað síðustu daga vegna kínverska skipsins Yi Peng 3 sem liggur þar við akkeri en áhöfn þess er grunuð um að hafa rofið tvo sæstrengi á botni Eystrasalts í lok nóvember.
Aftonbladet
Black Sea News (af skipunum sem urðu innlyksa 2022)