Myndskeið er í dreifingu af launmorði forstjóra bandaríska stórfyrirtækisins UnitedHealthcare, sem var skotinn til bana í miðborg Manhattan-eyju í New York. Byssumannsins er enn leitað.
Lögreglan segir að allt bendi til þess að árásin hafi aðeins beinst að forstjóranum Brian Thompson. Myndskeið af atvikinu er í dreifingu þar sem sjá má byssumanninn, með skammbyssu og hljóðdeyfi, skjóta Thompson nokkrum sinnum fyrir utan hótel hvar fyrirtækið var með ráðstefnu.
Atvikið gerðist rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun að staðartíma.
AP News greinir frá.
Byssumaðurinn flúði fótgangandi inn í húsasund og sást síðast á rafhjóli á leið inn í Central Park. Lögreglan í New York sagði að árásin á Brian Thompson hefði verið skipulögð en ástæðan væri óljós. Maðurinn er enn ófundinn.
Lögreglumenn fundu Thompson á jörðinni fyrir utan hótelið með skotsár á baki og hægri kálfa, að sögn Joseph Kenny, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar. Hann var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi klukkan 7.12.
Kenny sagði að skotmaðurinn virtist vera karlmaður með svarta andlitsgrímu, í svörtum og hvítum strigaskóm og „mjög sérkennilegan“ gráan bakpoka.
Hann kom fyrir utan hótelið um fimm mínútum áður en Thompson kom þangað, beið nálægt byggingunni og hunsaði aðra áður en hann nálgaðist Thompson aftan frá.
Eftir að árásarmaðurinn fór að skjóta á Thompson hökti byssan en hann náði að laga hana fljótt og hélt áfram að skjóta, að sögn Kenny.
„Eftir að hafa horft á myndskeiðið virðist hann vera mjög fær í að beita skotvopnum þar sem hann náði að laga höktið nokkuð fljótt,“ sagði Kenny.