Orðin „neita“, „verja“ og „útskúfa“ (e. deny, defend, depose) voru rituð á skothylki af kúlum sem óþekktur tilræðismaður skaut Brian Thompson, forstjóra tryggingasamsteypunnar UnitedHealthcare, með á götu í miðborg Manhattan í gær.
Frá þessu hefur lögreglan í New York greint ABC-fréttastofunni og velta stjórnendur rannsóknarinnar því nú fyrir sér hvort um einhvers konar skilaboð sé að ræða sem beint hafi verið að fórnarlambinu eða séu einhvers konar vísbending um hver kveikjan að ódæðinu var.
Eins og fram hefur komið var árás mannsins, sem var grímuklæddur, hnitmiðuð og leikur enginn vafi á því að hún hafi beinst að Thompson einum, sagði Jessica Tisch, lögreglustjóri New York-borgar, á blaðamannafundi um tilræðið. Ekkert sé þó vitað um þá ástæðu sem bjó að baki.
Er lögregla á því að tilræðismaðurinn hafi setið fyrir stjórnarformanninum við Hilton-hótelið á 54. götu við Sjötta breiðstræti, gengið svo að Thompson og skotið hann þegar hann kom aðvífandi snemma í gærmorgun, klukkan 6.40 að staðartíma þar sem hann sótti ráðstefnu sem haldin var á hótelinu.
Dvaldi Thompson þó ekki á Hilton.
Samkvæmt framburði vitna kom ódæðismaðurinn að hótelinu um það bil fimm mínútum á undan Thompson og beið hans þar áður en hann gekk út og skaut stjórnarformanninn formálalaust í bakið af stuttu færi á gangstéttinni fyrir utan. Hann gekk svo að Thompson þar sem hann lá á götunni eftir fyrsta skotið og skaut hann nokkrum skotum til viðbótar.
Að tilræðinu loknu forðaði maðurinn sér inn í húsasund þar sem lögregla fann síma er talið er að hann hafi misst. Kom hann sér svo undan á reiðhjóli og sást síðast til hans hjóla inn í Central Park klukkan 06:48 að staðartíma í gærmorgun.