Virði bitcoin rauk nýlega yfir 100.000 dali og markaði þar með sögulegt afrek rafmyntarinnar. Donald Trump eignaði sér heiðurinn á miðlinum Truth Social þar sem hann skrifaði: „CONGRATULATIONS BITCOINERS!!! $100.000!!! YOU’RE WELCOME!!! Together, we will Make America Great Again!“
Bitcoin hefur hækkað um 140% frá áramótum en síðastliðnar vikur hefur virði þess haldist rétt undir 100.000 dala markinu þar sem kaupendum þótti skorta hvata til frekari kaupa. Sá hvati varð til þegar Trump tilkynnti að Paul Atkins rafmyntabakhjarl yrði formaður bandaríska verðbréfaeftirlitsins. Tilkynningin veitti kaupendum von um að verðandi forseti Bandaríkjanna ætli sér að losa um utanumhald á rafmyntaviðskiptum.
Þrátt fyrir að hafa áður talað um rafmyntir sem „svindl“ hefur Trump verið mikill talsmaður þeirra í kosningabaráttu sinni og hét því að gera Bandaríkin að „bitcoin- og rafmyntahöfuðborg heimsins“.
Trump segir Atkins „staðfestan leiðtoga fyrir skynsamlegar reglugerðir“ en hann hefur meðal annars verið annar stjórnarformanna stafræns viðskiptaráðs (Digital Chamber of Commerce), sem stuðlar að notkun stafrænna eigna, síðan 2017. Trump segir þá sammælast um að stafrænar eignir og aðrar nýjungar skipti sköpum til að gera Bandaríkin stærri en nokkru sinni fyrr.