Markmiðið að steypa Assad af stóli

Leiðtogi uppreisnarmanna í Sýrlandi, sem sækja nú hratt fram í landinu, segir að markmiðið sé að steypa Bashar al-Assad forseta Sýrlands af stóli.

Uppreisnarmenn hafa náð nokkrum lykilsvæðum á sitt vald og að sögn mannréttindasamtaka eru þeir við það að ná borginni Homs. Talsmaður sýrlenska varnarmálaráðuneytisins hefur hins vegar neitað þeim fullyrðingum að herinn hafi dregið sitt herlið til baka.

Uppreisnarmaður stendur ofan á rifinni mynd af Bashar al-Assad, forseta …
Uppreisnarmaður stendur ofan á rifinni mynd af Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. AFP

Hafa sótt hratt fram á rúmri viku

Á rétt rúmri viku hefur uppreisnarmönnum tekist að ná Aleppo á sitt vald en borgin er sú næststærsta í landinu. Þeir hafa einnig náð yfirráðum yfir Hama sem er hernaðarlega mikilvæg. Þetta er í fyrsta sinn frá því borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst árið 2011 sem uppreisnarmönnum tekst að sækja fram með þessum hætti.

Takist uppreisnarmönnunum að ná Homs þá myndi það þýða að sýrlensk stjórnvöld missa stjórn á strandlengjunni við Miðjarðarhaf, sem hefur verið mikilvægt svæði Assad-fjölskyldunnar sem hefur stjórnað Sýrlandi í hálfa öld.

Borgin Hama í Sýrlandi.
Borgin Hama í Sýrlandi. AFP

Öllum meðulum beitt

Abu Mohammed al-Jolani, leiðtogi bandalags uppreisnarmanna sem nefnist Hayat Tahrir al-Sham (HTS), segir í samtali við CNN-fréttastöðina að markmiðið sé að binda enda á stjórnartíð Assads.

„Þegar við ræðum um markmið, þá er markmið þessarar byltingar að steypa stjórnvöldum af stóli. Það er réttur okkar að beita öllum mögulegum meðulum til að ná því markmiði,“ sagði Jolani.

HTS leiðir sókn uppreisnarmannanna sem hófst 27. nóvember. Bandalagið tengist sýrlenska hluta al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna en þau hafa reynt að mýkja ímynd sína á undanförnum árum.

Uppreisnarmenn sjást hér standa ofan á sýrlenskri herþotu eftir að …
Uppreisnarmenn sjást hér standa ofan á sýrlenskri herþotu eftir að þeim tókst að ná herstöð á sitt vald í borginni Hama. AFP

Að sögn mannréttindasamtaka í landinu drógu sýrlenskir hermenn, og íranskir bandamenn þeirra, herlið sitt snögglega frá Deir Ezzor í austurhluta landsins og héldu í átt að Homs, sem er í miðhluta landsins.

Samtökin greindu síðar frá því að herinn hefði dregið herlið sitt frá Homs og sagði Hassan Abdel Ghani, liðsforingi hjá uppreisnarmönnunum, að stjórnarherinn væri á fallandi fæti.

Talsmaður sýrlenska varnarmálaráðuneytisins sagði aftur á móti að ekkert væri hæft í þessu. Herliðið hefði ekki yfirgefið Homs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert