Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, vonast til þess að bandamenn Úkraínu taki notkun Rússa á hinni nýju ofurhljóðfráu eldflaug sinni, Oreshnik, alvarlega. Hann varar við því að Rússar séu reiðubúnir að beita „öllum ráðum“ til að verjast.
Þetta kom fram í viðtali Lavrov við bandaríska fjölmiðlamanninn Tucker Carlson.
Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra „verða að skilja að við værum tilbúnir að beita öllum ráðum til að leyfa þeim ekki að ná árangri í því sem þeir kalla hernaðarlegan ósigur Rússa,“ sagði Lavrov.
Fyrir tveimur vikum þá beittu Rússar nýju eldflauginni Oreshnik á borgina Dnípró og var það stigmögnun á átökunum.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur síðan þá hótað að siga slíkum eldflaugum á Kænugarð í kjölfar eldflaugaárása Úkraínumanna á Rússland, þar sem langdrægum vestrænum eldflaugum hefur verið beitt til árásanna.
„Við útilokum ekki notkun Oreshnik-flaugarinnar gegn hernum, hernaðarframleiðslu eða helstu miðstöðvum ákvarðanatöku, þar á meðal í Kænugarði,“ sagði Pútín á blaðamannafundi í Astana, höfuðborg Kasakstans, fyrir viku síðan.
„Við erum að gefa frá okkur merki og við vonum að síðasta merkið, fyrir fáeinum vikum síðan, með nýja vopnabúnaðnum Oreshnik verði tekið alvarlega,“ sagði Lavrov.
Þó hann segði að Rússar vildu ekki stigmagna ástandið og vildu forðast misskilning við stjórnvöld í Bandaríkjunum og bandamenn þeirra, varaði hann við því og sagði: „Við munum senda frekari skilaboð ef þeir draga ekki nauðsynlegar ályktanir.“