Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur útnefnt David Sacks sem sérlegan ráðgjafa gervigreindar og rafmynta (e. AI and Crypto Czar).
Sacks er fyrrverandi framkvæmdastjóri PayPal og því oft sagður tilheyra svokallaðri PayPal-mafíu, hópi áhrifamikilla tæknifrumkvöðla, en honum tilheyra menn eins og Elon Musk og Peter Thiel.
Félagar í þessum hópi hafa margir lýst yfir stuðningi sínum við íhaldssamar stjórnmálastefnur og frambjóðendur, Sacks studdi til að mynda framboð J.D. Vance sem varaforseta Trump.
Í þessu nýstofnaða hlutverki kemur Sacks til með að ráðleggja stjórnsýslunni í málum gervigreindar og rafmynta. Trump segir þetta brýn málefni þegar kemur að samkeppnishæfni Bandaríkjanna. „Hann mun standa vörð um tjáningarfrelsi á netinu og stýra okkur frá ritskoðun og hlutdrægni stóru tæknifyrirtækjanna (e. Big Tech)“.
Sacks kemur einnig til með að leiða forsetaráð (e. Presidential Council of Advisors) í málefnum tækni og vísinda.
Trump hefur í þessari kosningabaráttu verið mikill talsmaður rafmynta og hét því að gera Bandaríkin að „bitcoin- og rafmyntahöfuðborg heimsins“ en virði Bitcoin hefur hækkað um 50% síðan hann var kjörinn.
Eins og fram hefur komið hefur Musk stutt við forsetaframboð hans og hefur Trump í kjölfarið nefnt hann yfirmann nýstofnaðs skilvirknisráðuneytis (Department of Government Efficiency) ásamt öðrum efnuðum bandamanni, Vivek Ramaswamy en embættið gegnir eingöngu ráðgjafahlutverki.
Einnig nefndi Trump á dögunum Paul Atkins sem formann bandaríska verðbréfaeftirlitsins og er haft eftir Kathleen Brooks, rannsóknarstjóra kauphallarinnar XTB, að Atkins sé ólíklegur til að vera jafn mótsnúinn rafmyntum og forveri hans, Gary Gensler. Hún segir pólitík drifkraft Bitcoin og að hún efist um að því linni á næstunni.