Bauð aðstoð sína við sjálfsvíg

Vatnsturninn í miðbæ Trollhättan sem setur svip á miðbæinn þar. …
Vatnsturninn í miðbæ Trollhättan sem setur svip á miðbæinn þar. Norðmaður var handtekinn í bænum, grunaður um manndráp, en hann hefur boðið þeim aðstoð sína er vilja stytta sér aldur. Ljósmynd/Wikipedia.org/Thomas Pettersson

Norðmaður situr í haldi lögreglu í Svíþjóð, grunaður um manndráp í Trollhättan eftir að hafa nýlega hlotið átta ára dóm fyrir aðstoð við sjálfsvíg sem nú er í áfrýjunarferli.

Fredrik Brax, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Fyrbodal, staðfestir við norska dagblaðið VG að Norðmaðurinn hafi verið handtekinn en Dagens Nyheter og fréttastofan TTELA Svíþjóðarmegin greina frá því að kona hafi fundist örend á heimili sínu í Trollhättan í byrjun september.

„Við skoðum málið nú frá nýju sjónarhorni. Við höfum fengið nýjar upplýsingar og í ljósi þeirra liggur norskur ríkisborgari undir grun um manndráp,“ segir Brax við VG.

Gengur laus þrátt fyrir játningu

Norðmaðurinn neitar sök í manndrápsmálinu að því er verjandi hans segir en málið er þannig vaxið að í fyrstu var talið að konan hefði fyrirfarið sér þar sem bréf þess efnis fannst á vettvangi.

Grunaði áfrýjaði sem fyrr segir dóminum sem féll í sumar og gengur laus þrátt fyrir að hafa játað sök í sjálfsvígsmálinu. Í því tilfelli fannst kona á áttræðisaldri látin á hótelherbergi í Nordby í Svíþjóð og hafði tekið inn mikið magn lyfja sem urðu henni að bana. Sannað var að dæmdi var staddur á hótelherberginu samtímis henni.

Um árabil hefur maðurinn boðið fólki, sem hyggst stytta sér aldur, aðstoð sína og játaði hann þar að auki að hafa látið slíka þjónustu í té í mörgum tilfellum. Taldi rétturinn að maðurinn hefði þrýst á konuna að láta verða af sjálfsvíginu þrátt fyrir að hún hefði upphaflega leitað til hans.

Eftir því sem VG hefur komist á snoðir um hefur maðurinn hlotið refsidóma áður.

VG

NRK

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert