Mouaz Moustafa, framkvæmdastjóri bandarísku neyðaraðgerðasveitarinnar í Sýrlandi, segir að Damaskus falli í hendur uppreisnarsveita innan tíðar. Borgin sé í raun umkringd uppreisnarmönnum.
Þetta segir Moustafa í samtali við CBS-fréttastofuna en sveitin styður uppreisnarmennina.
Þá sagði ónefndur bandarískur embættismaður í samtali við sömu fréttastofu að Damaskus virðist „falla úthverfi fyrir úthverfi í hendur uppreisnarmanna“.
Sýrlensk stjórnvöld hafna því ítrekað að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hafi flúið land. Orðrómur þess efnis fór á kreik eftir að uppreisnarmennirnir hófu árásirnar.
Leiðtogi uppreisnarmanna í Sýrlandi sagði í gær að markmiðið með árásunum væri að steypa forsetanum af stóli.