Kókaínbarón fer huldu höfði í Dúbaí

Turninn Burj Khalifa í Dúbaí þar sem félagi í glæpagenginu …
Turninn Burj Khalifa í Dúbaí þar sem félagi í glæpagenginu Loyal to Familia fer huldu höfði og sendir ókjör af kókaíni til Danmerkur. AFP/Ryan LIM

Danska lögreglan neytir nú allra ráða til að hafa hendur í hári rúmlega fertugs innanbúðarmanns glæpagengisins Loyal to Familia, LTF, sem fer huldu höfði í Dúbaí og er talinn hafa staðið á bak við fjölda kókaínsendinga til Danmerkur undanfarið.

Samtals er talið að maðurinn, sem á sínum tíma var einn æðstu stjórnenda LTF, hafi átt þátt í flutningi samtals 357 kílógramma af efninu til Danmerkur auk þess að leggja á ráðin um dreifingu og sölu þess úr öruggu skjóli sínu í Dúbaí.

Engu að síður eru réttarhöld í máli hans hafin í Danmörku in absentia, það er að sakborningi fjarstöddum, og hefur hann þegar lýst því yfir að hann neiti sök í málinu. Með því að reka málið engu að síður vakir það fyrir ákæruvaldinu danska að vekja athygli dúbaískra lögregluyfirvalda á umfangi málsins og freista þess að fá lýst eftir ákærða þar í landi.

Bað að heilsa verjandanum

Meðal þeirra gagna sem saksóknari leggur fram í málinu eru skilaboð á dulkóðuðum samfélagsmiðlum, Encro og Sky ECC, hvort tveggja rituð sem í hljóðupptöku, sem félagsmenn LTF hafa notað til samskipta sín á milli um árabil.

Meðal þess sem einkum styður grun ákæruvaldsins um að sendandi þeirra skilaboða, sem lögð hafa verið fram sem gögn í málinu, sé ákærði er kveðja sem hann bað fyrir til danska verjandans Gitte Juul í samtali sínu við kumpána sinn í LTF.

Talið er að notandinn SlowGun á téðum miðlum sé ákærði og hafa eftirfarandi ummæli meðal annars verið kynnt dómendum héraðsdóms: „Má bjóða þér stöng (d. stang) á morgun?“ en eftir því sem danskir lögreglumenn hafa borið fyrir rétti er stöng slangurheiti yfir eitt kílógramm af kókaíni. Þá kemur uppgefið verð í evrum að sögn lögreglu heim og saman við markaðsverð kókaíns í Norður-Evrópu.

Efnin afhent við McDonald's

Meðal mála, sem ákærði er talinn hafa staðið á bak við, eru þrjú í hverjum samtals fjórir menn hafa hlotið dóma fyrir að taka á móti kókaíni í Danmörku sem flutt var þangað með vörubifreið skráðri í Þýskalandi sem danska lögreglan fylgdist með í ár og í fyrra áður en hún lét til skarar skríða.

Fram að því hafði hún fylgst með því er kókaínsendingar úr bifreiðinni voru afhentar á stæðum við McDonald‘s-veitingastað á Sjálandi og húsnæði fyrirtækisins Nemlig.com.

DR

DR-II (danskur dómstóll bannaði LTF árið 2019)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert