Tveir ökumenn eru látnir í Bretlandi af völdum stormsins Darragh sem nú gengur yfir Bretlandseyjar og hefur valdið tjóni víða, svo sem í Suður-Wales, á vestanverðu Englandi og Norður-Írlandi.
Létust mennirnir í tveimur aðskildum atvikum er tré féllu á bifreiðar þeirra í Birmingham og Lancashire en auk þess hefur Darragh gert mikla skráveifu, sett lestarsamgöngur og flug úr skorðum auk þess sem breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að hundruð þúsunda heimila um gervallt Bretland hafi verið án rafmagns í dag.
Fjöldi fólks hefur hringt í lögreglu og neyðarlínur og beiðst aðstoðar í illviðrinu sem fellt hefur tré víða auk þess sem fasteignir hafa laskast og þök fokið af þeim, meðal annars í Skotlandi.
Um þrjár milljónir Breta fengu sendar aðvaranir í síma sína á föstudagskvöld þegar ljóst varð að Darragh skylli á Bretlandseyjum af fullum þunga og vindhviðum sem mælst hafa allt að 42 metrar á sekúndu.