Enginn veit hvar Assad heldur sig

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, er í felum eftir að uppreisnarmenn náðu höfuðborginni Damaskus á sitt vald.

Nú er spurningin hvort Assad hafi flúið og þá hvert og hvort hann sé jafnvel á lífi en engar opinberar tilkynningar liggja enn fyrir um dvalarstað hans.

Fregnir herma að hann hafi farið um borð í flugvél sem fór í loftið frá flugvellinum í Damaskus en það hafa tveir nafnlausir háttsettir yfirmenn í sýrlenska hernum sagt við fréttamenn Reuters.

Ekki hefur verið upplýst hvert förinni var heitið en það sást til vélarinnar fljúga að suðurhluta landsins. Hún tók skyndilega U-beygju og hvarf síðan af ratsjá. Menn velta því nú fyrir sér hvort flugvélin hafi verið skotin niður.

„Kannski er slökkt á merkjamóttakara en ég tel líklegra að flugvélin hafi verið skotin niður,“ segir ónefndur sýrlenskur heimildarmaður í samtali við Reuters.

Vangaveltur eru um hvort Assad leiti skjóls í Rússlandi en hann var í heimsókn í Moskvu skömmu áður en sókn uppreisnarmanna hófst. Fjölskylda Assad er sagt eiga nokkrar lúxusíbúðir í Moskvu.

Einnig hafa verið getgátur um að Assad myndi flýja til annars bandamanns, Írans, en íranskar fréttastofur birtu nýlega myndir af Assad á fundi með háttsettum embættismanni í Damaskus.

Forsætisráðherra Sýrlands, Mohammad al-Jalali, hefur sagt að hann viti ekki hvar Bashar al-Assad er og að varnarmálaráðherra landsins hafi verið saknað síðan í gærkvöld.

Utanríkisráðherra Tyrklands, Hakan Fidan, hefur einnig lýst því yfir að honum sé ekki kunnugt um hvar Bashar al-Assad er niðurkominn.

Rússnesk yfirvöld greindu frá því fyrir stuttu að Assad hafi yfirgefið Sýrland og sagt af sér en þau viti ekki hvar hann er niðurkominn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert