Hafa náð Damaskus og Assad flúinn

Fólk fagnar á Umayyad-torgi í Damaskus.
Fólk fagnar á Umayyad-torgi í Damaskus. AFP

Sýrlenskir uppreisnarmenn hafa náð völdum í höfuðborginni Damaskus og herma fregnir að forsetinn Bashar al-Assad hafi yfirgefið landið í flugvél.

Uppreisnarmenn segjast ekki hafa mætt mikilli mótspyrnu og segir Mohammed Ghazi Jalali, forsætisráðherra Sýrlands, að hann sé reiðbúinn til samvinnu.

BBC greinir frá því að uppreisnarmenn hafi opnað Sadnaya fangelsið í höfuðborginni en það er stórt herfangelsi í útjaðri Damaskus þar sem sýrlensk stjórnvöld hafa handtekið þúsundir manna, þar á meðal pólitíska fanga. Í fangelsinu hafa andstæðingar Assad verið pyntaðir og teknir af lífi.

Uppreisnarmenn í höfuðborginni Damaskus.
Uppreisnarmenn í höfuðborginni Damaskus. AFP

Assad er sagður hafa flúið landið í flugvél á óþekktan stað en hann hefur verið við völd frá því faðir hans, Hafez-al Assad, lést árið 2000 en hann hafði gegnt forsetembættinu frá árinu 1971.

Framsókn uppreisnarmanna til Damaskus kemur eftir að þeir sögðust hafa frelsað borgina Homs að fullu.

Milljónir Sýrlendinga sem hafa verið á flótta utan landsteina hafa á samfélagsmiðlum fagnað endalokum áratuga stjórnar Bashar al-Assad.

„Ó Guð, ég get ekki hætt að gráta. Ég er að ímynda mér daginn sem ég fer til baka,“ skrifar mannréttindafrömuðurinn Rima Flihan á Facebook.

Hadi al-Bahra, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Sýrlandi, segir að stjórnarher Assad sé fallinn og myrkur tími í sögu Sýrlands sé liðinn og leggur áherslu á það við almenning að ástandið í Damaskus sé öruggt.

Uppreisnarmennirnir hófu fyrstu stórsókn sína í mörg ár í síðustu viku og náðu borgunum Aleppo og Homs á sitt vald og hafa síðan nálgast höfuðborgina hægt og bítandi. Markmið þeirra var að koma Assad frá völdum og það virðist hafa tekist.

 
 
Fólk fjarlægir borðia stjórnvalda nærri Umayyad-torgi í Damaskus.
Fólk fjarlægir borðia stjórnvalda nærri Umayyad-torgi í Damaskus. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert