Hver er sýrlenski uppreisnarhópurinn HTS?

Sýrlenski uppreisnarhópurinn HTS hefur náð völdum í höfuðborg landsins, Damaskus.
Sýrlenski uppreisnarhópurinn HTS hefur náð völdum í höfuðborg landsins, Damaskus. AFP

Sýrlenski uppreisnarhópurinn Hayat Tahrir al-Sham, eða HTS, hefur náð völdum í höfuðborginni Damaskus og hefur forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, yfirgefið landið. En hver er þessi uppreisnarhópur sem hóf sókn sína í lok nóvember?

HTS-hópurinn á sér langa sögu í Sýrlandsdeilunni og var upphaflega stofnaður undir nafninu Jabhat al-Nusra árið 2011 í borgarastyrjöld Sýrlands og var nátengdur al-Kaída-samtökunum.

Skilgreindur sem hryðjuverkasamtök

Að sögn breska ríkisútvarpsins tók leiðtogi Íslamska ríkisins, Abu Bakr al-Baghdadi, þátt í stofnun hópsins og er hópurinn skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Tyrklandi og öðrum löndum.

Hópurinn var talinn einn árangursríkasti hópur sem barðist gegn Assad Sýrlandsforseta í borgarastyrjöld Sýrlands en virtist þó hugmyndfræði jíhadista vera ríkjandi drifkraftur hópsins frekar en byltingarkenndur ákafi og þótti það vera á skjön við helstu bandalög annarra uppreisnarhópa sem börðust fyrir frelsi Sýrlands.

Leiðtogi hópsins, Abu Mohammed al-Jolani, rauf opinberlega tengsl við al-Kaída árið 2016 og leysti upp Jabhat al-Nusra.

Leiðtogi HTS-hópsins, Abu Mohammed al-Jolani.
Leiðtogi HTS-hópsins, Abu Mohammed al-Jolani. AFP

Vilja íslömsk yfirráð

Ári síðar stofnaði hann ný samtök sem tóku upp nafnið Hayat Tahrir al-Sham, eða HTS, sem samanstóðu af nokkrum svipuðum hópum.

Um nokkurt skeið hefur HTS komið valdastöð sinni á fót í norðvesturhéraðinu Idlib í Sýrlandi þar sem hópurinn hefur í raun starfað sem hálfgerð stjórnsýsla en hefur þó verið ásakaður um mannréttindabrot.

Eftir að hafa rofið tengslin við al-Qaeda hefur markmið HTS verið að reyna að koma á íslömsku yfirráðum í Sýrlandi frekar en í breiðara kalífadæmi, eins og Íslamska ríkið reyndi að gera.

Hafði HTS sýnt lítil merki um tilraunir til að berjast á ný gegn Assad Sýrlandsforseta þar til í lok nóvember þegar hópurinn hóf sókn sína og náði borgunum Aleppo og Hama á sitt vald og svo einnig í dag höfuðborginni Damaskus.

Árásargirni stjórnvalda óbærileg

Greint hefur verið frá að Assad Sýrlandsforseti hafi lengi hlotið stuðning Rússa í baráttu sinni gegn uppreisnarmönnum og þá hafi hann einnig hlotið stuðning Írans sem hafi veitt honum herlið Hesbollah-samtakanna.

Þar sem Rússland hefur nú staðið í stríði við Úkraínu og Ísrael átt í stríði við Hesbollah-samtökin, þar sem margir hverjir háttsettir liðsmenn samtakanna hafa verið drepnir, sá HTS-hópurinn sér mögulega leik á borði þar sem Assad var berskjaldaðri en venjulega og hóf aðsókn sína.

Samkvæmt The Guardian segir HTS að árásargirni stjórnvalda gegn íbúum Idlib hafi verið orðin óbærileg og að það hafi spilað stóran þátt í skyndilegri aðsókn þeirra.

Með HTS-hópnum í uppreisninni er herlið sýrlenskra vígamanna sem studdir eru af Tyrkjum og kalla sig Sýrlenska þjóðarherinn en hóparnir hafa í gegnum tíðina ýmist verið bandamenn eða andstæðingar sökum ólíkra markmiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert