Sýrlenska ríkisútvarpið hefur sjónvarpað skilaboðum þar sem lýst er yfir sigri uppreisnarinnar í Sýrlandi og falli forsetans Bashar al-Assad og hans glæpsamlegu einræðistíð.
Greint hefur verið frá að sýrlenskir uppreisnarmenn, hópurinn Hayat Tahrir al-Sham (HTS), hafi náð völdum í höfuðborginni Damaskus og herma fregnir að Sýrlandsforseti hafi yfirgefið landið í flugvél.
Í kjölfarið hafa nú birst skilaboð á ríkismiðli landsins þar sem uppreisninni og falli forsetans er fagnað.
„Sigur hinnar miklu sýrlensku byltingar og fall glæpsamlegrar stjórnartíðar Assad,“ segir í skilaboðunum.
Uppreisnarhópurinn HTS og bandamenn hans hófu fyrstu stórsókn sína í mörg ár í síðustu viku og náðu borgunum Aleppo og Homs á sitt vald.
Náðu þeir svo völdum í höfuðborginni Damaskus fyrr í dag.
Hefur hópurinn gefið frá sér að hann hafi steypt Assad af stóli og muni frelsa einstaklinga sem ranglega voru fangelsaðir.
Yfirlýsing hópsins var lesin upp á ríkisfréttastofu landsins og miðlað þar sem hópurinn tilkynnti frelsun borgarinnar Damaskus, fall harðstjórans Bashar al-Assad og að allir sem handteknir hefðu verið með óréttmætum hætti í stjórnartíð Assads yrðu frelsaðir úr fangelsum.
Þá hvatti hópurinn einnig borgara landsins til þess að standa vörð um hið frjálsa sýrlenska ríki.
Uppreisnin í Sýrlandi hófst árið 2011 og leiddi til borgarastyrjaldar eftir að al-Assad réðst harkalega gegn uppreisnarmönnum.
Aðsókn uppreisnarhópsins HTS hófst svo skyndilega í síðustu viku eftir fjögurra ára ró á fremstu víglínum.