Dauði, kvillar og vansköpun

Að vanda var salur Ráðhússins í Ósló þétt setinn þegar …
Að vanda var salur Ráðhússins í Ósló þétt setinn þegar friðarverðlaun Nóbels voru veitt japönsku mannréttindastofnuninni Nihon Hidankyo sem berst fyrir kjarnorkuvopnalausum heimi. Fremst á myndinni má sjá konungsfjölskylduna fylgjast með athöfninni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Hreyfing okkar hefur óumdeilanlega átt ríkan þátt í því að leiða bannhelgi yfir kjarnavopn,“ sagði Terumi Tanaka, framkvæmdastjóri japönsku stofnunarinnar Nihon Hidankyo en það var sú stofnun sem í dag hlaut friðarverðlaun Nóbels í Ráðhúsinu í Ósló í Noregi, 10. desember eins og hefðin gerir ráð fyrir, en það var dánardægur sænska efnafræðingsins og uppfinningamannsins Alfreds Nobels árið 1896.

Nihon Hidankyo berst fyrir kjarnorkuvopnalausum heimi og því að heimsbyggðin þurfi aldrei að upplifa annað eins og gerðist í japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945 þegar Harry Truman Bandaríkjaforseti neytti úrslitaráða til að knýja Japana til uppgjafar í síðari heimsstyrjöldinni.

Nóbelsverðlaunanefndin ásamt fulltrúum og stofnendum Nihon Hidankyo, í öðrum, þriðja …
Nóbelsverðlaunanefndin ásamt fulltrúum og stofnendum Nihon Hidankyo, í öðrum, þriðja og fjórða stól frá vinstri, þeim Terumi Tanaka, Shigemitsu Tanaka og Toshiyuki Mimaki. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þjóðfélagshópurinn „hibakusha“

Sá lokakostur forsetans hafði fyrir árslok 1945 kostað á þriðja hundrað þúsund mannslíf og fleiri urðu þau þegar upp var staðið – að ógleymdum þeim þúsundum sem bjuggu við varanlega fötlun ævina á enda eða fæddust með kvilla og vansköpun vegna óbætanlegs tjónsins af geislavirku úrfalli sprengjanna tveggja.

Gengur þessi hópur einu nafni undir japanska heitinu „hibakusha“ sem í beinni þýðingu táknar „fólk sem varð fyrir áhrifum af sprengjunum“ en Nihon Hidankyo hefur það hlutverk að halda utan um fjölda samtaka fórnarlamba kjarnorkusprenginganna í borgunum tveimur þar sem hvert borgarhverfi heldur úti sínum samtökum.

Kom þriggja manna sendinefnd frá Nihon Hidankyo til Óslóar til að veita verðlaununum viðtöku og flutti Tanaka ávarp í ráðhúsinu í dag fyrir hönd stofnunarinnar.

Terumi Tanaka, sem rankaði við sér þrettán ára gamall undir …
Terumi Tanaka, sem rankaði við sér þrettán ára gamall undir glerhurð á heimili sínu í Nagasaki 9. ágúst 1945 og varð vitni að því hvernig lík og helsært fólk lágu eins og hráviði um borg í rústum, flytur ávarp sitt á friðarverðlaunaafhendingu Nobels í Ráðhúsinu í Ósló í dag. AFP/Javad Parsa

Skaði sem á sér ekki fordæmi í sögunni

„Við stofnuðum Nihon Hidankyo, japönsku stofnunina fyrir samtök fórnarlamba atóm- og vetnissprengja í ágúst 1956. Við, sem sjálfir höfðum lifað af hin ómannúðlegu og þungu áhrif sprenginganna, skaða sem á sér ekki fordæmi í sögunni, settum stofnunina á fót í því augnamiði að slíkar þjáningar endurtækju sig aldrei og grunnkröfurnar voru tvær:

Að ríkið sem stóð fyrir árásinni og framkvæmdi hana skyldi gjalda fórnarlömbunum skaðabætur fyrir tjónið sem sprengjurnar ullu, þvert á þá stefnu japanskra stjórnvalda að „fórnir styrjalda skuli öll þjóðin bera til jafns“. Sú síðari er að kjarnavopn verði algjörlega tekin úr umferð sem fullkomlega ómannúðleg vopn til fjöldamorða sem skuli aldrei fyrirfinnast meðal mannkynsins,“ sagði Tanaka snemma í ávarpi sínu í dag.

„Ég var þrettán ára gamall“

Þrátt fyrir bannhelgina sem hann ræddi um að stofnunin hefði leitt yfir kjarnavopn gat hann þess að 12.000 kjarnaoddar fyrirfyndust á jörðinni í þeim töluðu orðum og þar af væri 4.000 reiðubúnir til notkunar án fyrirvara.

„Ég er einn þeirra sem lifðu af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki,“ hélt Tanaka máli sínu áfram, „ég var þrettán ára gamall og var heima hjá mér, þrjá kílómetra frá miðpunkti sprengingarinnar,“ sagði hann er hann rifjaði upp hinn örlagaríka dag 9. ágúst 1945, daginn sem borginni Nagasaki var nánast eytt af yfirborði jarðar.

Blaðamannaherbergið í Ráðhúsinu í Ósló, sem er raunar mötuneyti hússins, …
Blaðamannaherbergið í Ráðhúsinu í Ósló, sem er raunar mötuneyti hússins, er án vafa ein glæsilegasta vistarvera sem fjölmiðlafólk hefur fengið til afnota þótt mjög víða sé leitað. Veggirnir eru þaktir listaverkum, rýmið meira en nægt og útsýnið yfir Óslóarfjörðinn og hina nafntoguðu Aker-bryggju óhindrað. Þarna sitja túlkar verðlaunaafhendingarinnar einnig í glerbúrum, að baki ljósmyndara á þessari mynd, og þýða ræðuhöld jafnharðan á ýmsar þjóðtungur sem gestir athafnarinnar geta hlýtt á í heyrnartólum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Skyndilega heyrði ég drunurnar í sprengjuflugvél og skömmu síðar baðaði hvítt og skjannabjart ljós mig,“ hélt ræðumaður japönsku stofnunarinnar áfram í Ráðhúsinu í Ósló í dag þar sem öryggisgæsla var gríðarleg. Fjöldi vopnaðra lögreglumanna stóð vörð við innganga hússins og sprengjusveitarfólk í gráum einkennisbúningum leitaði með fulltingi sprengjuleitarhunds í öllum töskum, veskjum og pinklum sem fjölmiðlafólk hafði meðferðis, allir þurftu að láta yfirhafnir sínar af hendi til ítarlegrar leitar og enginn fór inn í Ráðhúsið í Ósló í dag í atvinnuskyni nema með því að ganga gegnum málmleitarhlið.

„Man ekkert eftir þessu augnabliki“

Áfram hélt Tanaka frásögn sinni. Hann missti meðvitund þegar heiftarleg höggbylgja atómsprengju með tegundarheitinu Mark III, öðru nafni „Fat Man“, sem varpað var úr sprengjuflugvél af gerðinni B-29, skall á heimili hans og jafnaði það nánast við jörðu.

„Ég man ekkert eftir þessu augnabliki, en þegar ég rankaði við mér lá ég undir rennihurð úr gleri. Það gekk kraftaverki næst að glerið var óbrotið og einhvern veginn slapp ég við meiðsli.“

Sagði Japaninn svo frá því hvernig hann fann heimili tveggja frænkna sinna þremur dögum síðar. Þær bjuggu nærri miðpunkti sprengingarinnar. „Þá sá ég þá auðn sem Nagasaki var eftir sprenginguna [...] Öll húsin þar sem við [Tanaka og móðir hans] gengum um voru brunnin og líkin lágu eins og hráviði umhverfis þau.

Fjölmiðlasvalirnar fyrir utan blaðamannasalinn í mötuneyti ráðhússins fá það hlutverk …
Fjölmiðlasvalirnar fyrir utan blaðamannasalinn í mötuneyti ráðhússins fá það hlutverk ár hvert að bera uppi aragrúa ljósmyndara sem mynda það sem fram fer í hátíðarsalnum fyrir neðan. Á verðlaunaafhendingunni í ár var hátt hlutfall þeirra frá Japan. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fjöldi fólks, sem enn var á lífi, helsært og brunnið, fékk enga hjálp. Ég varð næstum tilfinningalaus, ég lokaði einhvern veginn á mannúðartilfinningar mínar og gekk bara áfram,“ rifjaði Tanaka upp fyrir fullum sal ráðhússins þar sem bókstaflega mátti heyra saumnál detta fyrir utan látlausa smellina í myndavélum margra tuga fjölmiðlaljósmyndara – þetta árið var óvenjuhátt hlutfall frá Japan.

Mannkynið eyði ekki sjálfu sér

Margt fleira, sem ekki verður tíundað í stuttri frétt, kom fram í ræðu framkvæmdastjóra Nihon Hidankyo í Ráðhúsinu í Ósló í dag, stofnunar sem berst með klóm og kjafti hagsmunavarða – eða svokallaðra lobbýista sem draga nafn sitt af hinu gríðarmikla anddyri Bandaríkjaþings, Capitol Hill, þar sem þessi starfsstétt sleit barnsskónum – fyrir því að heimurinn læri af skelfingaratburðunum í Hiroshima og Nagasaki sumarið 1945.

„Látum ekki mannkynið eyða sjálfu sér með kjarnavopnum,“ voru lokaorð Terumi Tanaka á friðarverðlaunaafhendingunni í Ósló í dag, „tökum höndum saman í nafni mennsks samfélags í heimi sem er laus við kjarnorkuvopn og styrjaldir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert