Skógareldurinn Franklín sem hófst í gærkvöldi í Malibu í Kaliforníu breiðir nú hratt úr sér. Búið er að fyrirskipa rýmingar og hafa nokkur mannvirki orðið eldinum að bráð.
Eldurinn braust út í gærkvöldi og á fáeinum klukkustundum hafði hann breiðst yfir 730 hektara samkvæmt CAL FIRE, sem sér um varnir gegn skógareldum í Kaliforníu.
Margar Hollywood-stjörnur og stjórnendur í kvikmyndaiðnaðinum eiga húsnæði við strandlengjuna, en svæðið er eitt það eftirsóknarverðasta í Suður-Kaliforníu.
Pepperdine-háskóli aflýsti kennslu og lokaprófum í dag. Fyrir utan bókasafnið í skólanum má sjá mikinn reyk og brennandi tré og eru nemendur því með grímur til þess að anda ekki reyknum að sér.
Í neyðartilkynningu frá yfirvöldum klukkan 11.22 að íslenskum tíma sagði að embættismenn væru að ganga í hús og rýma þar sem eldarnir ógnuðu heimilum.
„Malibu-bryggja og önnur mannvirki, og mannvirki á Malibu Knolls Rd og Sweetwater Cyn hafa orðið fyrir barðinu á eldinum,“ sagði í tilkynningunni.