Hver er Luigi Mangione?

Luigi Mangione, maðurinn sem er grunaður um að hafa myrt forstjóra stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, útskrifaðist úr virtum háskóla og er sagður eiga ríka foreldra.

Mangione er 26 ára og hefur verið áberandi í fjölmiðlum eftir að hann var handtekinn í gær, grunaður um að hafa myrt Brian Thompson, tveggja barna föður, um hábjartan dag á Manhattan í New York.

Mangione er fæddur og uppalinn í Maryland-ríki en hefur einnig tengsl við borgina San Francisco í Kaliforníu, að sögn lögreglustjórans í New York, Joseph Kenny.

Hann hefur ekki áður verið handtekinn í New York og síðasta heimilisfang hans var í Honolulu á Hawaii, segir lögreglan.  

Luigi Mangione hefur verið handtekinn.
Luigi Mangione hefur verið handtekinn. AFP

Gekk vel í skólanum

Manginoe gekk í einkaskóla, eingöngu fyrir stráka, í Baltimore. Þar var hann á meðal bestu námsmanna.

Fyrrverandi skólafélagi hans sagði AP-fréttastofunni að hann hefði verið kominn af ríku fólki, meira að segja á mælikvarða einkaskólans.

„Satt best að segja hafði hann allt með sér,“ sagði skólafélaginn, Freddie Leatherbury.

Lögreglan í New York leitaði að grunuðum morðingja Thompson.
Lögreglan í New York leitaði að grunuðum morðingja Thompson. APF/Stephanie Keith

Mangione starfaði við vefsíðu sem selur notaða og nýja bíla, TrueCar, til ársins 2023, að því er BBC greindi frá.

Þegar hann var handtekinn fannst í fórum hans þriggja blaðsíðna handskrifuð yfirlýsing þar sem hann lýsti „óánægju í garð bandarískra stórfyrirtækja“, að sögn lögreglunnar.

Hrifinn af Kaczynski

Á samfélagsmiðlum má finna einhverjar vísbendingar um hugsanagang Mangione.

Á reikningi á Goodreads-bókasíðunni gaf til dæmis einstaklingur sem talinn er vera Mangione, texta sem nefnist Industrial Society and It's Future eftir Theodore Kaczynski fjórar stjörnur.

Um er að ræða stefnuyfirlýsingu Kaczynski, betur þekktur sem Unabomber. Hann stóð fyrir sprengjuherferð sem varð þremur að bana og særði tugi annarra á árunum 1978 til 1996 þegar hann var handtekinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert