Lögreglumaður stunginn í Noregi

Í brýnu sló milli lögreglu og vopnaðs árásarmanns í Jessheim …
Í brýnu sló milli lögreglu og vopnaðs árásarmanns í Jessheim í Noregi nú síðdegis og skaut lögregla manninn eftir að hann stökk lögregluþjón í hálsinn. AFP

Lögregluþjónn í Jessheim í Noregi, rúma 40 kílómetra norðaustur af Ósló, slapp með skrekkinn í útkalli á fimmta tímanum í dag að norskum tíma þegar tæplega þrítugur maður lagði til hans með eggvopni og særði hann á hálsi, þó ekki alvarlega. Sáu lögregluþjónar á vettvangi sig knúna til að bregða skotvopnum sínum í nauðvörn og kveðst vitni hafa heyrt fimm eða sex skothvelli.

Eftir því sem norskir fjölmiðlar herma hlaut árásarmaðurinn þó ekki helund af varnarskothríð lögreglu en liggur við minni háttar kaun á sjúkrahúsi og má reikna með ákæru í fyllingu tímans – ef ekki fyrir tilraun til manndráps þá fyrir árás á opinberan starfsmann við skyldustörf.

Sá fjölda lögregluþjóna drífa að

Höfðu nágrannaerjur í Jessheim orðið kveikjan að því að lögreglu barst tilkynning um að maður ógnaði nágranna sínum með hníf á lofti. „Þegar lögregla kom á vettvang var lögregluþjónn stunginn og var árásarmaðurinn skotinn,“ skrifar lögregla á samfélagsmiðla og staðfestir Peder Aulie vettvangsstjóri þetta við fjölmiðla.

Það var staðarblaðið Romerikes Blad sem ræddi við sjónarvott að atburðinum sem hafði séð margar lögreglubifreiðar á vettvangi atburða.

„Skyndilega heyrði ég nokkra skothvelli og sá fjölda lögregluþjóna drífa að,“ segir viðmælandinn sem enn fremur kveðst hafa séð skotblossa úr byssuhlaupi samtímis hvellunum. „Þeir heyrðust greinilega, ég er nokkuð viss um að þeir voru fimm eða sex,“ segir vitnið.

Rannsóknardeild innri málefna tilkynnt um

„Okkur var sagt að maður með hníf á lofti hefði sýnt nágranna sínum ógnandi háttsemi,“ segir Aulie vettvangsstjóri frá. „Við fórum á vettvang með allan tiltækan mannskap og bifreiðar [...] Mér er ekki kunnugt um hve mörgum skotum var hleypt af en það sem við vitum er að lögregla beitti hvort tveggja rafmagnsvopnum og skaut viðvörunarskotum,“ heldur hann áfram.

Aulie kveður lögreglu nú ræða við nágranna og önnur hugsanleg vitni að atburðinum og hefur sérstakri rannsóknardeild í innri málefnum lögreglu, spesialenheten for politisaker, verið gert aðvart eins og ávallt þegar norsk lögregla beitir skotvopnum sínum við skyldustörf.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert