Auðkýfingnum og fjölmiðlajöfrinum Rupert Murdoch hefur mistekist að festa elsta son sinn í sessi sem arftaka eins áhrifamesta fjölmiðlaveldis heimsins.
Þetta varð ljóst eftir úrskurð dómara í Nevada í gær, í deilu sem minnir á söguþráðinn í vinsælu sjónvarpsþáttaröðinni Succession, sem raunar var sjálf byggð á Murdoch, veldi hans og fjölskyldumynstri.
Murdoch, sem nú er 93 ára að aldri, hafði lengi ætlað börnum sínum að erfa fjölmiðlaveldið og stýra því að honum látnum.
Elsta dóttir hans, Prudence, hefur komið lítið að rekstrinum. En hin þrjú, Lachlan, James og Elisabeth, hafa hvert um sig á einhverjum tímapunkti komið til tals sem arftakar föður síns.
Á síðustu árum aftur á móti mun Murdoch hafa fyllst áhyggjum af því að Fox News, krúnudjásnið í stóru safni fjölmiðla, kunni að fjarlægjast hægri vænginn eftir andlát hans og leita meira inn á miðju, og endurspegla þannig skoðanir James og Elisabeth.
Af þeim sökum hefur hann reynt að útnefna Lachlan, sem nú stýrir Fox News og News Corp, sem aðalstjórnandann í veldinu öllu.
Til að koma því í kring þurfti að endurskrifa skilmála, sem kveða á um að valdinu verði framselt til systkinanna fjögurra í sameiningu.
Seint á síðasta ári breytti Murdoch óvænt skilmálunum og samkvæmt þeim fær Lachlan, sem sagður er deila viðhorfi föður síns til stjórnmála, einn atkvæðarétt en hin systkinin munu áfram njóta fjárhagslegs ábata.
Hefur Murdoch haldið því fram að þessi ráðstöfun sé í hag allra systkinanna.
Réttur var haldinn að baki luktum dyrum í dómshúsi í Nevada, þar sem Murdoch og systkinin fjögur eru sögð hafa öll borið vitni og fært fram sönnunargögn í september.
Skiptastjórinn komst að lokum að þeirri niðurstöðu að Murdoch eldri og Lachlan hefðu vitað betur þegar þeir reyndu að endurskrifa skilmálana. Kveðst skiptastjórinn ekki geta kvittað undir nýja textann.
Úrskurðurinn er þó ekki endanlegur. Honum verður nú skotið til dómara, sem annaðhvort lögfestir hann eða hafnar honum. Sú ákvörðun gæti svo aftur verið kærð, sem gæti kallað á enn önnur réttarhöld.
Flækjustig gildandi samkomulags endurspeglar þau litríku fjölskyldubönd sem ættfaðirinn hefur átt á sinni löngu lífsleið.
Mun það hafa verið gert árið 1999, sem hluti af samningi við aðra eiginkonu Murdochs – móður þeirra Lachlan, Elisabeth og James – sem vildi tryggja að börn hennar myndu ekkert missa með tilkomu barna Murdochs með þriðju eiginkonu hans, Wendi Deng.
Murdoch-veldið hefur gjörbreytt götublöðum, kapalsjónvarpi og gervihnattaútsendingum á undanförnum áratugum, á sama tíma og það hefur sætt ásökunum fyrir að ýta undir popúlisma í hinum enskumælandi heimi.
Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu og velgengni Donalds Trumps í Bandaríkjunum er hvort tveggja sagt eiga einhverjar rætur að rekja til Murdochs og hans miðla.