„Það jákvæða við þetta er að þeim hefur tekist að taka Aleppo og Homs án þess að innbyrðis átök brytust út og hafa stjórn á þeim andspyrnuöflum sem þeir hafa yfir að ráða,“ segir Arnór Sigurjónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og sérfræðingur í varnarmálum, í samtali við mbl.is um þá stöðu sem komin er upp í Sýrlandi í kjölfar óvæntrar valdatöku uppreisnarmanna Hayat Tahrir al-Sham-samtakanna.
Kveður Arnór það nú áleitna spurningu að hve miklu leyti Abu Mohammed al-Jolani leiðtogi samtakanna sé tilbúinn til að deila nýfengnum völdum sínum með öðrum uppreisnarhópum í hinu stríðshrjáða Sýrlandi þar sem skammt hefur verið stórra högga á milli á valdatíma hins harðráða forseta Bashars al-Assads sem hraktist frá völdum við atlögu uppreisnarmanna og er sagður hafa leitað skjóls hjá bandamanni sínum Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu.
„Þá er spurningin hvort [al-Jolani] takist að halda þessu saman og byggja upp einhvers konar stjórnarmynstur í Sýrlandi sem geri það að verkum að þeir geti byggt upp og búið áfram í sínu landi. Vandamálið er að þarna er mikil sundrung og margir andstæðir hópar að berjast um völdin,“ heldur varnarmálasérfræðingurinn áfram, ekkert lýðræði hafi verið ríkjandi í Sýrlandi í rúm fimmtíu ár, „þannig að þeir þekkja ekki það hugtak“, segir Arnór.
„Besta sviðsmyndin er sú að þeir nái utan um þetta og það jákvæða er að fyrrverandi forsætisráðherra [Mohammad Ghazi al-Jalali] hefur heitið samstarfi þannig að það virðist sem stjórnareiningar gömlu Assad-stjórnarinnar séu enn virkar. Þær hafa ekki verið leystar upp sem gefur von um að hægt sé að byggja á þeim og halda áfram,“ segir Arnór.
Verstu sviðsmyndina segir hann vera þá að sömu aðstæður komi upp í Sýrlandi og áður ríktu í Lýbíu og Írak og vísar þar til þeirrar sundrungar sem ríkt hefur í Lýbíu frá upphafi Arabíska vorsins haustið 2010, holskeflu uppþota og óeirða í arabaríkjunum, uppgangs súnnímúslima í Írak.
„Þetta lýkur ákveðnum kafla í Mið-Austurlöndum sem hefur verið einræði og algjört „brútalítet“ í Sýrlandi,“ segir Arnór, „en þeir sem tapa á þessu eru Rússar, þeir eru að missa áhrif sem þeir hafa aflað sér í þeirri borgarastyrjöld sem hefur verið háð í Sýrlandi síðan 2013, og Íranar sem hafa háð stríð við Ísrael gegnum Hizbollah með tengistöð gegnum Sýrland.“
Myndirðu segja að þessir atburðir núna væru þá hugsanlega fyrsta skrefið í átt að breyttri heimsmynd í Mið-Austurlöndum?
„Þetta er alla vega áframhald á þeirri þróun sem verið hefur,“ svarar Arnór, „ég myndi ekki segja að þetta væri breytt heimsmynd, en ég myndi halda að einræðisherrar á borð við [Abdel Fattah Saeed Hussein Khalil] El-Sisi í Egyptalandi litu sér nær,“ lýkur hann máli sínu.