Sænska strandgæslan hefur látið af varðstöðu sinni við kínverska flutningaskipið Yi Peng 3 sem nú hefur legið um þriggja vikna skeið í Kattegat-sundinu, á Jótlandshafi miðja vegu milli Danmerkur og Svíþjóðar, þar sem dönsk, þýsk og sænsk varðskip hafa lónað í nágrenni við það og meinað því för vegna gruns um skemmdarverk.
Er áhöfn skipsins, sem flutti rússneskan áburð í lausvigt í þurrlestum sínum, grunuð um skemmdarverk með því að hafa að kvöldi 17. og aðfaranótt 18. nóvember dregið akkeri skipsins á annað hundrað kílómetra eftir hafsbotni á Eystrasalti og með því rofið sæstrengina C-Lion1 og BCS, sem liggja annars vegar milli Svíþjóðar og Litáens og hins vegar milli Þýskalands og Finnlands.
Var för skipsins stöðvuð á Jótlandshafinu þar sem það liggur enn þá, en sænska strandgæslan hefur hins vegar, eftir því sem Mattias Lindholm upplýsingafulltrúi þar greinir sænska ríkisútvarpinu SVT frá, einfaldlega öðrum hnöppum að hneppa og hyggst nú hafa rafrænt eftirlit með Yi Peng 3 auk þess sem samið hafi verið við stjórnendur strandgæslu hinna ríkjanna sem hafa eftirlit með skipinu, Dana og Þjóðverja.
„Þetta getur tekið breytingum eftir því hvaða aðstæður koma upp, en á meðan allt er með svo kyrrum kjörum sem nú er metum við stöðuna svo að okkur sé óhætt að nota skip og mannskap í önnur verkefni,“ segir upplýsingafulltrúinn.