Meintum morðingja hampað sem hetju og kyntákni

Luigi Mangione á sér stóran aðdáendahóp á samfélagsmiðlum, meðal annars …
Luigi Mangione á sér stóran aðdáendahóp á samfélagsmiðlum, meðal annars vegna þess að hann þykir myndarlegur. Samsett mynd

Forstjóri sjúkratryggingafyrirtækis var skotinn til bana í New York. Og internetið heldur með… morðingjanum?

Morðið á Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthCare (UHC) eins stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, hefur fljótt orðið eitt helsta umræðuefni á samfélagsmiðlum síðustu vikuna.

Málið er í raun tekið að snúast um ójöfnuð í landinu og gremju Bandaríkjamanna gagnvart tryggingastofnunum sem halda grettistaki utan um heilsu landsmanna.

Sumir hafa hampað banamanninum sem alþýðuhetju og hefur hann verið kallaður „Tjónamatsmaðurinn“, eða „The Adjuster“ á ensku. Og ekki sakar það að hinn grunaði þyki myndarlegur.

Netverjar fá ekki nóg

Eins og helstu miðlar hafa greint frá situr hinn 26 ára Luigi Mangione í varðhaldi þar sem hann er grunaður um morðið. Lögmaður Mangiones, Thomas Dickey, segir að yfirvöld hafi „núll sönnunargögn sem tengja Mangione við morðið“.

En frá því að hinn grunaði var fyrst nafngreindur á mánudag, eftir að hann var handtekinn á McDonald's-stað í Pennsylvaníu, hafa æ fleiri smáatriði um Mangione komið í ljós. Og virðast þau koma mörgum á óvart.  Mangione útskrifaðist úr virt­um háskóla og er sagður eiga ríka for­eldra. Hann er sagður afbragðsnámsmaður og vel lesinn.

Samfélagsmiðlareikningar og færslur Mangiones hafa nú dreifst sem eldur í sinu um netheima. Einhverjir hafa tengt GoodReads-færslu sem virðist birt í nafni Mangiones við morðið, en þar gefur hann stefnuyfirlýsingu hryðjuverkamannsins Teds Kaczynskis (Unabomber) fjórar stjörnur.

Einhverjir hafa þá haft orð á útliti hins grunaða, sem þykir ekki ljótur.

„Smooth Criminal“

Það má finna aðdáendaklúbb fyrir nánast allt á netinu. Í kjölfar morðsins myndaðist fljótt hópur aðdáenda í kringum banamanninn, jafnvel þótt þeir vissu ekkert um hann.

Í skýrslu NCRI þar sem farið er yfir samfélagsmiðlafærslur sem tengjast morðinu segir að í vinsælustu færslunum á X hafi fólk ýmist lýst yfir „skýrum eða skilyrðislausum stuðningi“ við morðið eða svert fórnarlambið. Orðræða af þessum toga, sem hefur áður takmarkast nær alfarið við jaðarmiðla eins og 4chan, hafi nú fundið sér farveg inn á meginstraumsmiðla.

En jafnvel áður en Mangione var nafngreindur voru margir þegar farnir að lofsyngja banamanninn. Bókstaflega.

Maður að nafni Joe Devito birti myndskeið af sér þar sem hann syngur ballöðu um banamanninn og vísar í orðin „neita, verja og útskúfa“ sem áletruð voru á skothylki sem fundust á vettvangi (e. „deny, defend, depose“).

Eftir að greint var frá því að starfsmaður McDonald's hefði upplýst lögreglu um staðsetningu Mangiones birtist skyndilega grúi slæmra meðmæla á Google-prófíl veitingastaðarins.

11 þúsund manns hafa vistað lagalista á streymisveitunni Spotify sem er tileinkaður morðingja Thompsons, en hann geymir m.a. lögin Angel with a Shotgun og Smooth Criminal.

Það er því ljóst að margir halda með morðingjanum, hvort sem hann sé í raun Mangione eða annar.

„Hesma þúsma mesma vosma kasma isma?“ spurðu Stuðmenn. Textann má …
„Hesma þúsma mesma vosma kasma isma?“ spurðu Stuðmenn. Textann má þýða sem „heldur þú með vonda karlinum?“ Netverjar virðast óvissir um hver vondi karlinn er í þessu máli. AFP

Hvaðan kemur þetta?

En hvers vegna finnur fólk sig knúið til að fagna morðinu? Og hvaðan kemur þessi reiði í garð sjúkratryggingakerfisins?

Ólíkt Íslandi hafa Bandaríkin ekki skattgreidda heilbrigðisþjónustu. Þegar Bandaríkjamenn sækja sér læknaþjónustu er hún yfirleitt greidd í gegnum sjúkratryggingar einkaaðila.

Og einkarekin sjúkratryggingafyrirtæki á borð við UHC hafa árum saman legið undir ásökunum frá fjölmiðlum og yfirvöldum um að hafna kúnnum sínum um þjónustu, einkum ef þjónustan er dýr.

UHC hefur langhæsta höfnunarhlutfallið af öllum slíkum fyrirtækjum, 32%, sem er tvöfalt hærra en meðaltalið meðal tryggingastofnanna. Á sama tíma hefur fyrirtækið hagnast um 16 milljarða bandaríkjadala á síðasta ári, að því er New Yorker greinir frá.

New York Times segjast hafa lögregluskýrslu undir höndum þar sem fram komi að í stefnuskrá sem fannst í fórum Mangiones sé ýjað að því að hann hafi myrt forstjórann vegna „meintrar spillingar“ innan heilbrigðisþjónustugeirans.

Banamaðurinn, hvort sem hann er Mangione eða einhver annar, virðist í augum margra vera orðinn að manngervingu fyrir gremju þeirra sem hafa þurft að standa í striti vegna skulda við sjúkratryggingafélög. Og út frá færslum á samfélagsmiðlum að dæma virðist stuðningur við ódæðaverk banamannsins ekki endilega einskorðast við annað hvort hægri eða vinstri stjórnmál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert