Fjöldi heimila og landsvæði hefur orðið skógareldum að bráð í Malibu í Kaliforníuríki í dag.
Íbúum hefur verið fyrirskipað að rýma heimili sín. Skógareldarnir hafa fengið nafn, eins og fellibyljir vestanhafs fá gjarnan, og eru nú kallaðir Franklin-eldarnir.
Talið er að eldarnir hafi kviknað í Malibu-gljúfri seint á mánudagskvöld að staðartíma. Upptök eldanna er óljós, en aðstæður eru ekki góðar á svæðinu og hefur rauð viðvörun vegna eldhættu verið í gildi þar að undanförnu.
Malibu er lítill, ákaflega vinsæll bær, vestur af Los Angeles sem getið hefur sér gott orð sem dvalarstaður ríka og fræga fólksins. Á meðal íbúa eru söngkonan Lady Gaga og ofurhjónin Beyoncé Knowles og Jay-Z.
Skólar voru lokaðir á svæðinu í dag, lokað var fyrir umferð um helstu vegi og þá hefur rafmagn verið tekið af hluta svæðisins til að lágmarka skaða.
Fjöldahjálparstöðvar eru opnar fyrir þau sem flýja hafa þurft heimili sín.