Sagður hafa boðið Xi á innsetningarathöfnina

Xi Jinping, forseti Kína, og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Xi Jinping, forseti Kína, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, er sagður hafa boðið Xi Jinping, forseta Kína, að vera viðstaddur innsetningarathöfnina þegar hann tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í næsta mánuði. Þá stendur einnig til að bjóða fleiri erlendum þjóðarleiðtogum.

Frá þessu greinir fréttastofa CBS sem kveðst hafa heimildir fyrir þessu.

Þann 20. janúar tekur Trump við embætti forseta Bandaríkjanna við hátíðlega innsetningarathöfn í Washington D.C.

Sendiherrar og aðrir diplómatar fá að jafnaði boð á innsetningarathafnir en í gögnum utanríkisráðuneytisins frá árinu 1874 kemur fram að erlendur leiðtogi hefur aldrei verið viðstaddur valdaskiptin.

Á einnig að hafa boðið Orbán

Trump bauð Xi í nóvemberbyrjun, skömmu eftir kosningasigur sinn, en ekki liggur fyrir hvort að Xi hafi þegið boðið. Talsmaður kínverska sendiráðsins í Bandaríkjunum tjáði sig ekki við CBS.

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, á einnig að hafa fengið boð á innsetningarathöfnina en samkvæmt heimildum CBS liggur ekki fyrir hvort að hann muni mæta.

Meðlimir í innsta hring Trumps eru harðir gagnrýnendur kínverskra stjórnvalda, þar á meðal Marco Rubio, sem Trump tilnefndi sem utanríkisráðherra, og Mike Waltz, verðandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps. Trump hefur sjálfur hótað því að hækka tolla á vörur frá Kína.

Ljósmynd frá innsetningarathöfn Donald Trumps í embætti Bandaríkjaforseta árið 2017.
Ljósmynd frá innsetningarathöfn Donald Trumps í embætti Bandaríkjaforseta árið 2017. AFP

Hitt marga þjóðarleiðtoga að undanförnu

Trump hefur lengi talið að náin tengsl á milli leiðtoga séu lykillinn að alþjóðlegum samskiptum.

Frá kosningasigri hans í síðasta mánuði hafa leiðtogar heims farið til Mar-a-Lago, heimili Trumps í Flórída, til að hitta Trump, þar á meðal Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Javier Milei, forseti Argentínu.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, var fyrsti þjóðarleiðtoginn til að taka á móti Trump erlendis frá því hann sigraði í kosningunum, en það var á opn­un­ar­hátíð Notre Dame-dóm­kirkj­unn­ar í Par­ís. Einnig voru Georgi Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti og Vilhjálmur Bretaprins viðstaddir opnun Notre Dame.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert