Skortur á bjórnum Guinness er yfirvofandi í Bretlandi á sama tíma og eftirspurn er í hæstu hæðum.
Framleiðandi Guinness hefur þurft að grípa til takmarkana á útflutningi bjórsins til kráa í Bretlandi og það þrátt fyrir framleiðsla sé í hámarki.
Þá ber að spyrja hvað veldur þessari skyndilegri uppsveiflu í vinsældum drykks sem á rætur að rekja til Dyflinnar á Írlandi á 18. öld?
Einfalda svarið er að framleiðandinn, Diageo, hefur unnið hart að markaðssetningu Guinness á meðal yngri kynslóða.
Áhrifavaldar á borð við Kim Kardashian og Oliviu Rodrigo hafa látið taka myndir af sér með drykkinn um hönd og leikur sem hefur það að markmiði að kljúfa G-ið (e. split the G) á Guinness-glasinu hefur náð miklum vinsældum.
Markmið leiksins er að ná að drekka fram að miðju bókstafsins G á glasinu í fyrsta sopa.
Herferð Diageo að ná til yngri kynslóðarinnar hefur sannarlega skilað sínu og þá einkum á meðal kynslóðarinnar sem kennd er við bókstafinn Z.
Talsmaður Diageo segir framleiðandann hafa hámarkað framboð sitt á drykknum en þau geti ekki mætt gríðarlega mikilli eftirspurn.
Vegna þessa hefur verið gripið til að takmarkana á útflutningi til kráa í Bretlandi.
Eftirspurnin eftir Guinness fer á skjön við heildareftirspurn eftir bjór en neysla á bjór hefur minnkað frá því í júlí.
Á sama tíma hefur neysla á Guinness á börum og krám rúmlega fimmfaldast.
Þó er ekki öll von úti í Bretlandi, að minnsta kosti ekki á Norður-Írlandi, en framleiðandinn sagði fréttastofu BBC að ekki væri að vænta skorts á Guinness á börum og krám þar. Þá er ekki heldur skortur á Írlandi.
Þannig gætu Bretar nýtt jólafríið í stutta ferð yfir Írlandshaf til þess að gæða sér á Guinness af dælu.