Time tilkynnir um mann ársins á morgun

Heimildarmenn Politico fullyrða að Trump verði fyrir valinu.
Heimildarmenn Politico fullyrða að Trump verði fyrir valinu. AFP/Getty Images/Michael M. Santiago

Búist er við því að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, verði útnefndur „maður ársins“ af bandaríska tímaritinu Time á morgun. Til að fagna afhjúpun forsíðunnar mun Trump hringja inn viðskiptin í Kauphöllinni á Wall Street.

Frá þessu greinir Politico og hefur eftir þremur heimildarmönnum sem þekkja til áformanna.

Tón­list­ar­kon­an Taylor Swift var á síðasta ári maður ársins hjá Time en tímaritið hef­ur valið mann árs­ins frá ár­inu 1927.

Hefur áður orðið fyrir valinu

Ef Trump verður fyrir valinu þá er um að ræða annað skipti sem hann verður fyrir valinu hjá Time, en hann var einnig útnefndur árið 2016 þegar hann var fyrst kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Alls hafa 14 Bandaríkjaforsetar orðið fyrir valinu og flestir þeirra oftar en einu sinni.

Hér má sjá forsíðu blaðsins frá árinu 2016 þegar Trump …
Hér má sjá forsíðu blaðsins frá árinu 2016 þegar Trump varð fyrir valinu. Skjáskot/Time

Aðrir koma til greina

Stuttur listi yfir þá sem valið stóð á milli var kynntur á mánudaginn í þættinum The Today Show á NBC og á honum voru meðal annars Trump, Kamala Harris, Katrín prinsessa af Wales, Elon Musk, Joe Rogan og Benjamín Netanjahú.

Sá sem verður fyrir valinu ár hvert er sú manneskja sem hefur haft hve mest áhrif á heiminn á liðnu ári og í fortíðinni hefur fólk á borð við Winston Churchill, Elon Musk, Angela Merkel og Adolf Hitler orðið fyrir valinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert